Beitt og afgerandi verk á svið

Kristín Eysteinsdóttir borgarleikhússtjóri.
Kristín Eysteinsdóttir borgarleikhússtjóri. mbl.is/Árni Sæberg

„Komandi leikár einkennist af beittum og afgerandi verkum þar sem við skoðum samfélagið og manneskjuna í öllum sínum myndum,“ segir Kristín Eysteinsdóttir borgarleikhússtjóri. „Ég starfa með öfluga verkefnavalsnefnd mér við hlið og við leggjum fyrstu drög að hverju leikári með árs fyrirvara,“ segir Kristín og bendir á að mjög vel sé hugað að því hvernig verkin tala saman innbyrðis og henta á hverjum tíma. „Áður en við endanlega röðum upp leikárinu erum við yfirleitt með um fimmtíu verk í pottinum. Það ratar ekkert inn á leikárið fyrir tilviljun, því verkin fara í gegnum margar síur og miklar rökræður. Þótt breiddin þurfi að vera mikil í verkefnavali viljum við ekkert miðjumoð. Við viljum að verk og nálgun listrænna stjórnenda sé afgerandi og hafi skýrt erindi,“ segir Kristín og tekur fram að vinna verkefnavalsnefndarinnar sé bæði skemmtileg og gefandi. Með henni í nefndinni sitja Hrafnhildur Hagalín listrænn ráðunautur, Hafliði Arngrímsson leiklistarráðunautur, Hlynur Páll Pálsson fræðslustjóri, Ilmur Stefánsdóttir leikmyndahönnuður og leikskáld hússins sem um þessar mundir er Salka Guðmundsdóttir.

Rétti tíminn fyrir 1984

„Við erum alltaf að leita að góðum sögum sem okkur finnst mikilvægar og við teljum að hafi erindi. Miðað við þá þungu undiröldu sem er í heiminum í dag varðandi uppgang fasismans, hlýnun jarðar og stöðu flóttafólks erum við að taka inn mikið af verkum sem skoða þessi mál á beinan eða óbeinan hátt. Fyrsta frumsýning leikársins endurspeglar þetta mjög vel,“ segir Kristín og vísar þar til 1984 eftir samnefndri skáldsögu George Orwells í leikgerð Roberts Ickes og Duncans Macmillians sem frumsýnt verður á Nýja sviðinu 15. september. „Við vorum búin að vera með þessa leikgerð inni á borði hjá okkur í tvö ár, enda mjög vel skrifuð, og vorum sammála um að núna væri rétti tíminn fyrir þetta verk.“

Kristín bendir á að þótt tæp 70 ár séu síðan þessi fræga framtíðarsýn Orwells leit fyrst dagsins ljós kallist söguefnið sterkt á við samtímann. „Aðalpersóna sögunnar, Winston Smith, vinnur fyrir Flokkinn við að breyta upplýsingum og staðreyndum í blöðum og kennslubókum með hliðstæðum staðreyndum eftir því sem kemur sér vel fyrir Flokkinn, dregur úr gagnrýni og sjálfstæðri hugsun almennings. Þetta kallast á við umræðuna um „fake news“ eða falsfréttir,“ segir Kristín og bendir á að í grunninn fjalli verkið um venjulegar manneskjur í óvenjulegum aðstæðum.

„Í heimi verksins er hvorki pláss fyrir sannleikann né ástina. Engu að síður verður Winston ástfanginn af Júlíu,“ segir Kristín og tekur fram að ástin sé hjartað í uppfærslunni. „Þess vegna fannst okkur Bergur Þór Ingólfsson vera rétti leikstjórinn fyrir þetta verkefni því það er alltaf svo mikil mennska í öllum hans sýningum,“ segir Kristín. Með hlutverk Winstons og Júlíu fara Þorvaldur Davíð Kristjánsson og Þuríður Blær Jóhannsdóttir.

Leiftrandi húmor Tyrfings

Kartöfluæturnar nefnist nýtt leikrit eftir Tyrfing Tyrfingsson í leikstjórn Ólafs Egils Egilssonar sem frumsýnt verður á Litla sviðinu 22. september. „Tyrfingur, sem var fastráðið leikskáld hjá okkur 2014 og 2015, hefur ótrúlega gott vald á tungumálinu og leikur sér við að afbyggja það. Kartöfluæturnar er fjórða verk Tyrfings sem ratar á svið í Borgarleikhúsinu, en fyrri verkin eru Bláskjár, Auglýsing ársins og Skúrinn á sléttunni,“ segir Kristín og bendir á mikilvægi þess að leikskáld fái tíma og rými til að þróast.

„Nýjasta leikrit hans fjallar um samband móður við börnin sín tvö og ákveðna hluti í fortíð þeirra. Þarna er verið að skoða mörkin milli sannleika og lygi, stríðs og friðar, meðvirkni og hvernig ákveðin samskiptamynstur færast milli kynslóða. Aðdáendur Tyrfings verða ekki fyrir vonbrigðum, því verkið er uppfullt af hans leiftrandi húmor, en um leið má kannski segja að það sé hefðbundnara í forminu en hans fyrri verk,“ segir Kristín. Með hlutverk móðurinnar fer Sigrún Edda Björnsdóttir, en börn hennar leika Atli Rafn Sigurðarson og Edda Björg Eyjólfsdóttir.

Hárbeitt ádeila og fyndin

Guð blessi Ísland eftir Mikael Torfason og Þorleif Örn Arnarsson í leikstjórn þess síðarnefnda er fyrsta frumsýningin á Stóra sviðinu, en hún verður 21. október. „Þetta er gleðileikur. Rammi verksins er sú hugmynd að guð hafi skapað heiminn á sjö dögum, en við Íslendingar rústuðum honum á öðrum sjö,“ segir Kristín og bendir á að í uppfærslunni séu síðustu sjö dagar fyrir bankahrunið í október 2008 til rannsóknar.

„Líkt og í Njálu er verið að skoða íslensku þjóðarsálina, en bara frá öðrum vinkli. Upphaflega var hugmyndin að setja rannsóknarskýrslu Alþingis upp sem dæmisögur í anda þjóðsagna Jóns Árnasonar. Við höfum engan áhuga á að setja okkur í dómarasætið eða leita sökudólga, heldur er ætlunin að rannsaka mannlegt eðli og skoða sögurnar okkar. Þetta verður hárbeitt ádeila, en um leið bráðfyndin. Eins og í Njálu liggur mikil rannsóknarvinna hópsins að baki uppfærslunni og Þorleifur sendi leikarana í sumarfrí með heimaverkefni. Þetta er mjög krefjandi sköpunarferli en eftir því gefandi,“ segir Kristín.

Afbyggja ákveðna sögu

„Við erum með nokkur samstarfsverkefni á næsta leikári. Það fyrsta, sem nefnist Natan og frumsýnt verður á Litla sviðinu 26. október, er við leikhópinn Aldrei óstelandi. Þar er um að ræða nýtt íslensk verk þar sem eitt þekktasta sakamál Íslandssögunnar og síðustu aftökurnar á Íslandi eru til skoðunar,“ segir Kristín og vísar þar til morðanna á Natani Ketilssyni og Pétri Jónssyni á Illugastöðum í mars 1828, sem þau Agnes Magnúsdóttir, Friðrik Sigurðsson og Sigríður Guðmundsdóttir voru sakfelld fyrir.

„Marta Nordal leikstýrir og vinnur handritið ásamt Sölku Guðmundsdóttur í samvinnu við Eddu Björgu Eyjólfsdóttur og Stefán Hall Stefánsson sem leika í verkinu. Líkt og í fyrri sýningum Aldrei óstelandi er hópurinn að afbyggja ákveðna sögu sem verður spennandi að sjá.“

Medea opin til túlkunar

Síðasta frumsýningin fyrir áramót er Medea eftir Evrípídes í þýðingu og leikgerð Hrafnhildar Hagalín og leikstjórn Hörpu Arnardóttur sem frumsýnd verður á Nýja sviðinu 29. desember. „Þetta er verk sem við höfum lengi heillast af, enda er það tímalaust og mjög opið til túlkunar. Þetta er sami hópur og færði okkur Dúkkuheimilið og það verður gaman að sjá hvernig þau takast á við þetta verk sem hefur verið leikið í nokkur þúsund ár og sérstaklega mikið í Evrópu allra síðustu árin, sem helgast að stærstum hluta af því að Medea er flóttamaður. Hún hefur fórnað öllu fyrir Jason, eiginmann sinn, og yfirgefið heimaland sitt fyrir hann. Þegar hann yfirgefur hana fyrir aðra konu er hún gerð útlæg og á ekkert eftir nema börnin sín. Þá velur hún að hefna sín með skelfilegum hætti. Efni leikritsins er klassískt, þ.e. ástir og svik,“ segir Kristín. Með hlutverk Medeu og Jasons fara Kristín Þóra Haraldsdóttir og Atli Rafn Sigurðarson.

Baráttan við náttúruöflin

Fimmtudaginn 11. janúar fagnar Leikfélag Reykjavíkur 121 árs afmæli og af því tilefni verður frumsýnt á Stóra sviðinu Himnaríki og helvíti í leikstjórn Egils Heiðars Antons Pálssonar sem byggist á þríleik Jóns Kalmans Stefánssonar. „Sýningin ber titil fyrstu bókarinnar, Himnaríki og helvíti, en leikgerð Bjarna Jónssonar byggist einnig á Harmi englanna og Hjarta mannsins,“ segir Kristín og rifjar upp að Egill Heiðar hafi komið til fundar við sig fyrir tveimur árum með hugmyndina að uppfærslunni þar sem hann hafi langað til að skoða höfundarverkið í nýjum miðli.

„Grunnþema bókanna, sem eru epískar og stórar sögur, er barátta mannsins við náttúruöflin. Kringumstæður hverrar bókar fyrir sig eru mjög myndrænar. Fyrsta bókin hverfist um sjóferðina, önnur bókin um heiðina og sú þriðja gerist í þorpinu. Það verður unnið út frá stórum myndrænum þáttum í sýningunni. Leikgerðin er byggð á aðferðum frásagnarleikhússins þar sem leikhópurinn allur segir söguna saman,“ segir Kristín. Meðal leikara eru Bergur Þór Ingólfsson, Haraldur Ari Stefánsson, Björn Stefánsson, Margrét Vilhjálmsdóttir og Þuríður Blær Jóhannsdóttir.

Þrautir í hliðarheimi

Í lok janúar verður frumsýnt á Litla sviðinu barna- og unglingaverkið Skúmaskot eftir Sölku Guðmundsdóttur í leikstjórn Grétu Kristínar Ómarsdóttur. „Söguhetjur verksins eru tvær systur sem villast ofan í undirgöng undir Skeifuna þar sem leynist hliðarheimur. Þar þurfa þær að leysa ýmsar þrautir,“ segir Kristín og bendir á að ævintýraheimurinn minni um margt á anda Harry Potter-bókanna eða Narníu-bókanna. Með hlutverk systranna fara Þórunn Arna Kristjánsdóttir og Vala Kristín Eiríksdóttir.

Allt klikkar á sýningu

Næsta samstarfsverkefni vetrarins er unnið í samvinnu við Sokkabandið, en þar er um að ræða Lóaboratoríum eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur í leikstjórn Kolfinnu Nikulásdóttur sem frumsýnt verður á Litla sviðinu í janúarlok. „Verkið fjallar um fjórar konur á jaðrinum sem allar búa í sama fjölbýlishúsinu,“ segir Kristín, en meðal leikara eru Arndís Hrönn Egilsdóttir og Elma Lísa Gunnarsdóttir.

Gamanleikurinn Sýningin sem klikkar eftir Henry Lewis, Jonathan Sayer og Henry Shields í leikstjórn Halldóru Geirharðsdóttur verður frumsýndur á Nýja sviðinu í mars. „Leikritið hlaut Olivier-verðlaunin sem besti gamanleikurinn í Bretlandi árið 2015. Þetta er gamanleikur fyrir fólk sem þolir ekki farsa og líka fyrir þá sem dýrka þá. Það fjallar um leikhóp sem setur upp gamaldags Agöthu Christie-morðgátu. Leikhópurinn er svo lélegur að allt sem getur klikkað í sýningunni klikkar. Þetta er sýning um leikhúsið í leikhúsinu. Brandarar verksins eru á kostnað meirihlutans og leikaranna, sem gleyma stöðugt textanum sínum og leikmunum og leikmynd virkar ekki sem skyldi. Allt sem er fyndið í verkinu liggur því í gjörðum leikaranna, ekki textanum,“ segir Kristín og tekur fram að verkið krefjist flinkra leikara. Í fararbroddi verður Bergur Þór Ingólfsson, en honum til halds og trausts eru m.a. Kristín Þóra Haraldsdóttir, Björn Stefánsson, Hjörtur Jóhann Jónsson og Katrín Halldóra Sigurðardóttir.

Fagna fjölbreytileikanum

Söngleikurinn Rocky Horror verður frumsýndur á Stóra sviðinu um miðjan mars í leikstjórn Mörtu Nordal með Pál Óskar Hjálmtýsson í hlutverki Franks-N-Furters. „Okkur hefur um nokkurt skeið langað að setja upp djarfan og beittan söngleik. Rocky Horror býður upp á geggjaða músík auk þess sem sagan á mikið erindi við samtímann. Þegar söngleikurinn var frumsýndur á sínum tíma tengdist hann hugmyndum um frjálsar ástir og uppreisn við borgarastéttina. Í dag má sjá verkið sem uppreisn gegn pappakössum og áformum yfirvalda um að steypa alla í sama mót. Á tímum Trumps og rétttrúnaðar er enn mikilvægara en ella að fagna frelsinu og fjölbreytileikanum – sem við munum gera í þessari sýningu. Í grunninn fjallar sýningin um það hvernig er að vera útlagi í þjóðfélaginu og eiga engan samastað. Við ætlum að gera Rocky Horror sem fer alla leið, þar sem pönkið og hráleikinn verður allsráðandi,“ segir Kristín og fer ekki dult með það að Páll Óskar hafi verið efstur á óskalistanum fyrir aðalhlutverkið.

„Við festum ekki sýningarréttinn fyrr en Páll Óskar hafði tekið hlutverkið að sér. Ég veit að honum hefur verið boðið hlutverkið áður, en þá hafði hann ekki áhuga. Hann var hins vegar sammála okkur um það hversu brýnt erindi verkið ætti núna,“ segir Kristín og rifjar upp að Páll Óskar hafi hafið feril sinn aðeins 18 ára þegar hann lék hlutverkið í uppfærslu Leikfélags MH fyrir 27 árum. „Hann er búinn að eiga ótrúlega farsælan feril og langar að þakka fyrir sig með því að leika þetta hlutverk aftur í nýju samhengi.“

Fíkninni að bráð

Síðasta frumsýning leikársins er Fólk, staðir og hlutir eftir Duncan Macmillian í leikstjórn Gísla Arnar Garðarssonar á Litla sviðinu í mars sem sett er upp í samstarfi við Vesturport. „Þetta er mjög vel skrifað verk sem fjallar um manneskju sem er búin að brenna allar býr að baki sér vegna drykkju og fíkniefnaneyslu. Þegar verkið hefst er hún komin á endastöð og á leið í meðferð.“ Í aðalhlutverki er Nína Dögg Filippusdóttir, en með hlutverk foreldra hennar fara Sigrún Edda Björnsdóttir og Jóhann Sigurðarson. „Það er mikið leikhús inni í verkinu, þar sem leikarar stökkva inn og út úr ólíkum hlutum með afstöðunni einni.“

Að lokum má nefna að fimm sýningar frá fyrra leikári verða sýndar áfram í vetur. Þar er um að ræða söngleikina Elly og Bláa hnöttinn og farsann Úti að aka, allar á Stóra sviðinu frá haustinu. Brot úr hjónabandi og Jólaflækja verða sýndar á Litla sviðinu frá nóvember. „Þetta eru allt sýningar sem nutu mikillar velgengni í vetur sem leið og við náðum ekki að anna eftirspurninni. Við viljum því gefa áhorfendum tækifæri á að sjá þær áfram.“

Vilja ekki eintóna sýn

Athygli vekur að kynjahlutfall leikstjóra er jafnt á komandi leikári. Aðspurð segist Kristín þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að gæta að jafnræði kynjanna í hópi listrænna stjórnenda og veita hæfileikaríkum konum tækifæri til að leikstýra. „Reynsluheimur og sýn kvenna er önnur en karla. Við þurfum að láta raddir kvenna sjást og heyrast, annars fáum við eintóna sýn á hlutina.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant