Þar sem ástinni er úthýst

Pyntingasenan í herbergi 101 í ástamálaráðuneytinu undir forystu O'Briens er …
Pyntingasenan í herbergi 101 í ástamálaráðuneytinu undir forystu O'Briens er óhuggulega vel útfærð og Valur Freyr Einarsson sannfærandi sem fulltrúi hins miskunnarlausa valds. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

„Uppfærsla Borgarleikhússins á 1984 er áhrifamikið innleg inn í samtímann. Umfjöllunarefnið er drungalegt, en myndirnar sem dregnar eru upp lifa lengi með áhorfendum. Og boðskapurinn er skýr: Við þurfum að líta nógu lengi upp frá skjánum til að taka eftir því sem á sér stað í kringum okkur og þora, líkt og leikstjórinn sjálfur, að hafa hátt þegar okkur misbýður,“ skrif­ar Silja Björk Huldu­dótt­ir í leik­dómi sín­um um leik­sýn­ing­una 1984. 

„Óhætt er að segja að skáldsagan 1984 eftir George Orwell sé ein áhrifamesta bók 20. aldar. Sú myrka framtíðarsýn sem þar er dregin upp hefur sett mark sitt á síðari tíma dystópíur og nægir í því samhengi að nefna Sögu þernunnar eftir Margaret Atwood sem slegið hefur eftirminnilega í gegn í nýrri aðlögun fyrir sjónvarpsskjáinn. Hvort sem fólk hefur lesið 1984 eða ekki kannast flestallir við hugtök á borð við Stóra bróður, sem fylgst getur með öllu, og herbergi 101, þar sem einstaklingsins bíður það sem hann óttast mest.

Þótt Orwell hafi skrifað bókina í skugga seinni heimsstyrjaldar og vísi t.d. í hreinsanir Kommúnistaflokksins undir stjórn Jósefs Stalín í lýsingu sinni á því hvernig þegnum er eytt úr öllum opinberum skjölum og heimildum talar skáldsagan til samtímans með skuggalegum hætti. Það sést best á því að henni skaut upp á metsölulista netbókaverslunarinnar Amazon í upphafi árs í kjölfar þess að Kellyanne Conway, ráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta, fór að tala um öðruvísi staðreyndir eða sannlíki (e. alternative facts). Sjálfur hefur Trump ráðist harkalega á fjölmiðla og sakað þá um að flytja falsfréttir (e. fake news), sem er velþekkt bragð stjórnvalda.

Leyndarhyggja og stýring á upplýsingum er mikilvægt stjórntæki veikra valdhafa sem þora ekki að mæta almenningi á jafnræðisgrundvelli með rökum og samtali heldur sitja í fílabeinsturni og reyna að telja þegnum trú um að „fáfræði [sé] styrkur“. Í krafti upplýsingaskorts er einnig auðveldara að stýra almenningi með ótta við sameiginlegan óvin. Í slíkum heimi er ekkert pláss fyrir gagnrýna hugsun, mennsku, samkennd eða ást, enda enginn hættulegri valdinu en sá eða sú sem elskar því þá hefur viðkomandi eitthvað til að berjast fyrir.

Þrátt fyrir að verkið hafi verið skrifað fyrir tæpum 70 árum talar það með ískyggilegum hætti beint til nútímans. Sú skynjun er undirstrikuð í klókri leikgerð Roberts Ickes og Duncans Macmillans þar sem tíminn er leystur upp og fortíð, nútíð og framtíð renna saman með áhrifaríkum hætti, en í heimi verksins fyrirfinnst ekkert nema viðstöðulaus samtími. Þegar Winston Smith (Þorvaldur Davíð Kristjánsson), starfsmaður sannleiksráðuneytis Eyjaálfu, í upphafi leiks hefur dagbókarskrif sín fyrir hina ófæddu er hann sjálfur ekki einu sinni viss um hvaða ár er og getur heldur ekki svarað þeirri endurteknu spurningu hvar eða hver hann haldi að hann sé. Senur eru endurteknar með smávægilegum breytingum eða færri þátttakendum sem fær Winston til að efast um eigin skynjun og geðheilsu. En hver myndi ekki missa raunveruleikaskynið í heimi þar sem fylgst er með borgurum allan sólarhringinn, börnum er innrætt að njósna um foreldra sína í anda starfsaðferða Stasi, yfirvöld breyta upplýsingum og staðreyndum eftir eigin geðþótta sem krefst þess aftur að íbúar tileinki sér tvíhugsun, þ.e. getuna til að samræma tvær mótsagnakenndar kenningar og leyfa þeim báðum að vera réttar í senn. Undir stjórn Stóra bróður eru tveir plús tveir þannig ekki alltaf fjórir, heldur stundum fimm, stundum þrír og stundum allt þetta í einu, á sama hátt og „strax“ er teygjanlegt hugtak.

Þorvaldur Davíð Kristjánsson og Þuríður Blær Jóhannesdóttir í hlutverkum sínum …
Þorvaldur Davíð Kristjánsson og Þuríður Blær Jóhannesdóttir í hlutverkum sínum sem Winston og Júlía. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

Heimurinn breytist þegar Winston kynnist Júlíu (Þuríður Blær Jóhannesdóttir), starfssystur sinni úr ráðuneytinu. Á yfirborðinu virðist hún hlýðinn borgari, enda gengur hún með skarlatsrauðan mittislinda til að sýna Flokknum, sem öllu ræður í alræðisríkinu Eyjaálfu, hollustu sína. Þegar í ljós kemur að Júlía hefur jafnmikinn ímugust á stjórnvöldum og Winston taka þau upp ástarsamband, enda felst pólitískur gjörningur í því að elskast í heimi þar sem fullnæging er bönnuð. Elskendurnir hittast á laun í bakherbergi fornmunaverslunar Charrington (Jóhann Sigurðarson), en herbergið er eitt fárra þar sem engan eftirlitsskjá Flokksins er að finna. Þau komast í kynni við O'Brien (Valur Freyr Einarsson), starfsbróður sinn úr ráðuneytinu, sem tengir þau við andspyrnuhreyfinguna Bræðralagið. Áður en yfir lýkur lenda Winston og Júlía hins vegar í klóm hugsanalögreglunnar og enda á að svíkja ástina til að bjarga sér frá alvarlegum limlestingum en missa í staðinn lífsneistann.

Sýningin, í leikstjórn Bergs Þórs Ingólfssonar og ágætri þýðingu Eiríks Arnar Norðdahl, byrjar af miklum krafti eftir að dróni hefur flogið yfir sviðið og áhorfendur verið minntir á að Stóri bróðir fylgist með öllu. Ágeng lýsing, hljóðmynd og myndbönd eru nýtt með haganlegum hætti til að skapa viðeigandi andrúmsloft eftirlitssamfélagsins þar sem snjallsíminn er notaður til að skrásetja allt og tjá reiði. Hin undirliggjandi ógn hvarf hins vegar að nokkru þegar tækni eftirlitsins var að mestu lögð til hliðar um miðbik verksins og hléið sleit stemninguna óþarflega mikið í sundur. Sennilega hefði það styrkt uppbyggingu sýningarinnar að sleppa hléinu og þétta atburðarásina á köflum.

Leikhópurinn stendur sig með mikilli prýði og samleikurinn er góður. Þorvaldur Davíð Kristjánsson er einstaklega sympatískur Winston. Hann fær tækifæri til að fara allan tilfinningaskalann, frá reiði til örvæntingar með viðkomu í voninni meðan ástin blífur og skilar hlutverkinu af miklu öryggi. Pyntingasenan í herbergi 101 í ástamálaráðuneytinu undir forystu O'Briens er óhuggulega vel útfærð og Valur Freyr Einarsson sannfærandi sem fulltrúi hins miskunnarlausa valds.

Þuríður Blær Jóhannesdóttir fær úr minni efnivið að moða en gerir sér þó góðan mat úr hlutverki ungu stúlkunnar sem þráir byltingu, en er frá höfundarins hendi smættuð niður í kyn sitt þegar hún er sökuð um að vera „bara uppreisnarmaður frá mitti og niður úr“. Hannes Óli Ágústsson er skemmtilegur í hlutverki Parsons, vinnufélaga Winstons, sem er stoltur af uppeldi ungrar dóttur sinnar (Erlen Isabella Einarsdóttir) þótt fórnarkostnaðurinn sé mikill. Erlen Isabella sýnir frábæra takta í hlutverki dóttur Parsons-hjónanna og hefur fallega nærveru í hlutverki systur Winstons. Haraldur Ari Stefánsson er spaugsamur í hlutverki Symes, vinnufélaga Winstons, og óhuggulega kaldur í hlutverki aðstoðarmanns O'Briens. Þórunn Arna Kristjánsdóttir á fallega innkomu sem syngjandi öreigakona og er örvæntingin uppmáluð sem móðir Winstons annars vegar og frú Parsons hins vegar. Jóhann Sigurðarson rammar frásögnina vel inn í hlutverki gestgjafans og fornmunasalans.

Leikmynd Sigríðar Sunnu Reynisdóttur er snjöll í einfaldleika sínum. Fjöldinn allur af gráum tröppum sem brotnar eru upp með misstórum pöllum kallast sterklega á við grafíkverk hollenska listamannsins M.C. Escher sem með meistaralegum hætti nýtti sér óvenjuleg sjónarhorn og sjónskekkju til að fanga ómögulega hluti. Sá ómöguleiki kallast sterklega á við kröfu Flokksins um tvíhugsun og markvissa útvötnun á tungumálinu með þróun Nýmáls eða Nýsproks sem gerir hugsanaglæpi sjálfkrafa ógerlega. Tröppurnar mynda völundarhús þar sem persónur geta auðveldlega týnst í martraðarkenndum heimi verksins. Búningarnir þjóna sýningunni einnig afar vel,“ segir í leikdómnum sem birtur er í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Leitaðu nýrra leiða til þess að auðga líf þitt og bæta. Einhver þér eldri getur miðlað þér af reynslu sinni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
3
Kolbrún Valbergsdóttir
4
Sigríður Dúa Goldsworthy
5
Arnaldur Indriðason
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Leitaðu nýrra leiða til þess að auðga líf þitt og bæta. Einhver þér eldri getur miðlað þér af reynslu sinni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
3
Kolbrún Valbergsdóttir
4
Sigríður Dúa Goldsworthy
5
Arnaldur Indriðason