Stjörnuleikur í gæðaflokki

„Leikrit Florians Zeller vill með sinni snjöllu uppbyggingu gefa okkur …
„Leikrit Florians Zeller vill með sinni snjöllu uppbyggingu gefa okkur innsýn í hugarheim sem eðli máls samkvæmt er okkur lokaður. Eggert lýkur honum upp og býður okkur inn. Það boð ættu sem flestir að þiggja,“ skrifar Þorgeir Tryggvason í leikdómi sínum sem lesa má í heild sinni í Morgunblaðinu í dag. Ljósmynd/Hörður Sveinsson

„Fátt er eins æsandi í leikhúsi og stjörnuleikur í þessum gæðaflokki. Það er þetta sem svo margir leikhúsgestir eru komnir til að sjá. Það kemur auðvitað engum á óvart að Eggert Þorleifsson geri leikhúsið heimsóknarinnar virði,“ skrifar Þorgeir Tryggvason í leikdómi sínum um Föðurinn eftir Florian Zeller í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur sem birtur er í Morgunblaðinu í dag. Verkið var frumsýnd í Kassanum í Þjóðleikhúsinu fyrir skemmstu. 

„Heimsmynd Andrés, aðalpersónu Föðurins eftir franska leikskáldið og rithöfundinn Florian Zeller, er heimsmynd verkfræðingsins. Nákvæmni, stundvísi og viðtekið stigveldi er umhugsunarlaust í hávegum haft.

Einnig stuðandi hreinskilni sem iðulega fer yfir strikið út í grimmd sem líklega er oftast ómeðvituð, en mögulega ekki alltaf. Sérstaklega í samskiptum við dótturina Anne, og sérstaklega þar sem André er að gamlast og er smátt og smátt að missa tökin,“ skrifar Þorgeir og heldur áfram: 

„Grunnhugmynd verksins er ákaflega snjöll. Zeller nýtir sér þá staðreynd að áhorfandinn þekkir ekki þetta fólk og veit almennt ekki hvað gerist næst og setur hann í spor Andrés þar sem heimur hans liðast í sundur og fyllist af óvissu og ógnum. Þetta tekst á stundum einstaklega vel, með hrollvekjandi áhrifum. Jafnframt fylgjumst við með álaginu sem ástand Andrés og krefjandi persónuleiki leggur á hans nánustu, hvernig dóttir hans glímir við og vinnur úr bæði hversdagslegum uppákomum og tilfinningum sem samvera með André kveikja. Höfundur hefur valið að halda þeim þráðum, kringumstæðum Andrés, einföldum og dæmigerðum, þetta fólk getur staðið fyrir nánast hverja sem er í svipuðum kringumstæðum. Skiljanleg ákvörðun, en gerir verkið dálítið sviplaust og formlegt. Dæmisaga frekar en raunverulegar kringumstæður lifandi fólks með öllum sérkennum, sögu og tiktúrum sem einkenna okkur. Eðlilega hljómandi þýðing Kristjáns Þórðar Hrafnssonar kemur þessu látlausa eðli textans vel til skila.

Kristín Jóhannesdóttir vinnur gegn þessari deyfð í verkinu með ýmsum ráðum í túlkun sinni. Þeirra veigamestar eru hvernig persónurnar í kringum André eru málaðar sterkari litum en textinn virðist kalla á. Á stundum reynir um of á þanþol hans, eins og til dæmis í skoplegri tilraun Anne og sambýlismannsins til að eiga náið samneyti ofurölvi.

Harpa Arnardóttir er annars sannfærandi og kröftug í hlutverki Anne, full af spennu og óþoli í sínum erfiðu aðstæðum. Þröstur Leó Gunnarsson er einnig prýðilega trúverðugur sem Pierre, sem reynir hvað hann getur að halda sig til hlés og lúta vilja konu sinnar, en hafa jafnframt áhrif á hann,“ skrifar Þorgeir og víkur í framhaldinu að leik annarra leikara sýningarinnar, en leikdóminn má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag. 

„Svo virðist sem ætlun Kristínar sé að styrkja þá tilfinningu áhorfandans að hann horfi á verkið allt með augum aðalpersónunnar, líka þá hluta þar sem André er ekki á sviðinu. Það held ég sé ekki sérlega gagnleg ákvörðun. Ráðvilla Andrés þarf held ég þvert á móti að standa í skýrri andstöðu við trúverðugan, rökréttan og raunsæislega teiknaðan hversdag, til að öllum slagkraftinum í stefnumóti hans við ástand sitt sé til skila haldið.

Þessi afstaða endurspeglast í áferðarfallegri leikmynd Stígs Steinþórssonar. Hin mjög svo stofnanalega stofa sem myndar umgjörð sýningarinnar tekur breytingum eftir því sem líður á verkið, en það hversu kaldranaleg og óheimilislega uppstillt hún er frá upphafi dregur úr áhrifunum af þeim breytingum. Gerir áhrifin vitræn frekar en tilfinningaleg. Tæknilegum möguleikum veggjanna, í samspili við lýsingu Halldórs Arnar Óskarssonar, er aftur á móti beitt á verulega sláandi hátt áður en yfir lýkur. Tónlist Borgars Magnasonar er líka hið besta innlegg í andrúmsloftið og búningar Þórunnar Maríu Jónsdóttur styðja á látlausan hátt við túlkun leikenda.

Það verður síðan að segjast eins og er að tækni- og túlkunarlegar efasemdir mínar hverfa nánast algerlega í skuggann af frammistöðu aðalleikarans. Hér nær Eggert Þorleifsson að setja alla sína þrautþjálfuðu nákvæmni í tímasetningum, allt sitt glæsilega næmi í náttúrulegri meðferð texta, í þjónustu makalaust vel unninnar persónusköpunar. Hrokabrynja Andrés í byrjun, brestirnir sem smátt og smátt koma í hana uns hann stendur berskjaldaður með hana molnaða í kringum sig; allt er þetta jafn trúverðugt, sannfærandi og áhrifaríkt í meðförum Eggerts. „

Fátt er eins æsandi í leikhúsi og stjörnuleikur í þessum gæðaflokki. Það er þetta sem svo margir leikhúsgestir eru komnir til að sjá. Það kemur auðvitað engum á óvart að Eggert Þorleifsson geri leikhúsið heimsóknarinnar virði. Hitt er gott að láta minna sig á, að stjörnuframmistaða og leiksigrar eru ekki bara flugeldasýningar eða afreksíþróttir. Við færumst nær persónunum. Skiljum þær betur, látum örlög þeirra okkur varða. Leikrit Florians Zeller vill með sinni snjöllu uppbyggingu gefa okkur innsýn í hugarheim sem eðli máls samkvæmt er okkur lokaður. Eggert lýkur honum upp og býður okkur inn. Það boð ættu sem flestir að þiggja.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant