„Tosca er rammpólitískt verk“

Claire Rutter og Ólafur Kjartan Sigurðarson í hlutverkum sínum sem …
Claire Rutter og Ólafur Kjartan Sigurðarson í hlutverkum sínum sem Tosca og Scarpia. Ljósmynd/Jóhanna Ólafsdóttir

„Ég þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um þegar mér bauðst að leikstýra Toscu hérlendis, enda mikill heiður,“ segir Greg Eldridge, leikstjóri Toscu eftir Giacomo Puccini sem Íslenska óperan frumsýnir í Eldborg Hörpu á laugardag. Hljómsveitarstjóri er Bjarni Frímann Bjarnason, en með hlutverk Toscu, Cavaradossi og Scarpia fara Claire Rutter, Kristján Jóhannsson og Ólafur Kjartan Sigurðarson. 

Eldridge er fæddur og uppalinn í Ástralíu, þar sem hann lagði stund á leiklistarnám samhliða lögfræði áður en hann hélt til Ítalíu til að nema óperuleikstjórn. „Meðan ég var í leiklistarnáminu í Ástralíu fannst mér að ég yrði að reyna að sjá eins margar leiksýningar og unnt væri. Ég hafði því samband við stórt leikhús í Melbourne og var ráðinn sem sætavísir samhliða námi. Á um fjögurra ára tímabili gafst mér tækifæri til að sjá um tvö þúsund sýningar í öllum rýmum leikhússins, sem reyndist mér ómetanlegur skóli og jók skilning minn á leikhús- og sviðssetningarvinnunni til muna,“ segir Eldridge, sem árið 2013 fékk, yngstur allra, inngöngu í tveggja ára prógramm á vegum Konunglega óperuhússins í London (Royal Opera, Covent Garden) sem ætlað er að þjálfa unga leikstjóra og bauðst í framhaldinu árs samningur sem leikstjóri. Eldridge hefur leikstýrt yfir 40 uppfærslum í sjö löndum og verið aðstoðarleikstjóri að á fimmta tug sýninga, þeirra á meðal að uppfærslu Konunglega óperuhússins í London á Toscu 2014 í leikstjórn Jonathan Kent þar sem sjálfur Plácido Domingo hélt um tónsprotann og Bryn Terfel söng Scarpia.

Greg Eldridge, leikstjóri Toscu eftir Puccini, sem Íslenska óperan frumsýnir …
Greg Eldridge, leikstjóri Toscu eftir Puccini, sem Íslenska óperan frumsýnir á laugardag, segir verkið vera rammpólitískt. mbl.is/Hanna

Stórfenglegir söngvarar

„Claire var forfallasöngvari fyrir hlutverk Toscu í þeirri uppfærslu og því gladdi það mig mjög þegar ég heyrði að hún hefði verið ráðin til að syngja Toscu hér. Ólafi vann ég með hjá Opera Holland Park. Þau eru bæði stórfenglegir söngvarar og frábærir leikarar. Ég var því afskaplega ánægður með ráðningu þeirra,“ segir Eldridge og bendir á að óperuleikstjórar hafa sjaldnast eitthvað um það að segja hvaða söngvarar eru ráðnir. „Við undirbúum umgjörð og konsept sýningarinnar í samvinnu við aðra listræna stjórnendur í um tvö ár áður en við hittum söngvarana í fyrsta sinn á æfingu. Söngvararnir setja eðlilega sitt mark á lokaútkomuna, sem verður sjaldnast alveg eins og maður hafði ímyndað – en þó alltaf betri, því að reynsla og þekking þátttakenda skilar sér alltaf inn í vinnuna,“ segir Eldridge og bendir á að Rutter búi að því að hafa sungið hlutverk Toscu víðs vegar um heiminn síðustu 20 ár.

„Nýverið áttum við Claire þriggja klukkustunda fund þar sem við ræddum allar hliðar aríunnar „Vissi d’arte“ sem Tosca syngur í öðrum þætti og tekur aðeins hálfa þriðju mínútu í flutningi. Slíkt væri ekki hægt ef hún væri að syngja hlutverkið í fyrsta sinn.“

Kristján þekkir Cavaradossi býsna vel enda sungið hlutverkið í á fjórða hundrað skipta á sviði, m.a. hjá La Scala- og Metropolitan-óperunni. Hvernig hefur samstarf ykkar verið?
„Það eru mikil forréttindi að fá að starfa með söngvara sem hefur tengsl við nýliðna gullna fortíð óperuheimsins,“ segir Eldridge og vísar þar til þess tíma þegar tenórarnir þrír, Domingo, Carreras og Pavarotti, voru upp á sitt besta. „Mér finnst í raun ótrúlegt að Kristján ráði enn við þetta hlutverk, sem gerir mjög miklar kröfur til flytjenda, en það er einfaldlega til merkis um það hversu góðri söngtækni hann býr yfir. Ég veit ekki um neinn tenór samtíða Kristjáni sem enn ræður við að syngja hlutverkið. Það gefur mér sem leikstjóra mjög mikið að vinna með jafn hæfileikaríku fólki,“ segir Eldridge. Til gamans má geta þess að Kristján söng Cavaradossi fyrst sex árum áður en Eldridge fæddist, þ.e. árið 1980 í konsertuppfærslu með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Kristján Jóhannsson hefur sungið hlutverk Cavaradossi í á fjórða hundrað …
Kristján Jóhannsson hefur sungið hlutverk Cavaradossi í á fjórða hundrað skipta á sviði, m.a. hjá La Scala- og Metropolitan-óperunni. Ljósmynd/Jóhanna Ólafsdóttir

Fagnar gráu hárunum

„Ég fagna gráu hárunum sem loks eru farin að láta á sér kræla, því samhliða þeim eykst traustið á mér sem leikstjóra. Ég átti einu sinni fund með listrænum stjórnanda leikhúss sem tilkynnti mér í upphafi samtals okkar að hann myndi aldrei ráða leikstjóra sem væri yngri en fertugur, þar sem slíkt væri sóun á fjármunum leikhússins. Sem betur fer eru ekki allir listrænir stjórnendur sama sinnis, því þá fengi ég lítið að gera. Ég skil samt vel sjónarmið hans, því að óperan er dýrasta listformið og því skiljanlegt að stjórnendur taki enga sénsa.“

Tosca er ein vinsælasta ópera tónbókmenntanna. Hvað í verkinu heillar þig sem leikstjóra?„Þetta er tilfinningaþrungið verk með skýrri sögu og vel mótaðri persónusköpun, sem auðveldar okkur listamönnum vinnu okkar. Líkt og hjá Shakespeare eru þemu Toscu algild og tala til fólks á ólíkum tímum. Í grunninn snýst Tosca um óréttlæti. Allir sem búa eða búið hafa í samfélagi þar sem ráðamenn hafa svikið sig til valda eða misnota völd sín í eigin þágu í stað samfélagsins skilja óperuna. Tosca er rammpólitískt verk. Þó að ekki fari vel fyrir aðalpersónum óperunnar skilur verkið áhorfendur eftir með von um að við getum breytt samtíma okkar með samúð og réttlæti að vopni.“

Hvar staðsetur þú þína Toscu í tíma og rúmi?
„Leikritið La Tosca eftir Victorien Sardou, sem Verdi samdi tónlist sína við, var upphaflega látið gerast árið 1800 þar sem tilburðir hægrisinnaðra leiðtoga til heimsyfirráða ógnuðu Evrópu og sköpuðu óróa um allan heim,“ segir Eldridge og rifjar upp að ópera Verdis hafi verið frumflutt 1900, aðeins 14 árum áður en fyrri heimsstyrjöldin braust út. „Þó að 217 ár skilji að upphaflega sögusviðið og nútímann verðum við í dag vitni að uppgangi öfgasinnaðra hægriafla í ýmsum löndum heims á sama tíma og lýðræðið, tjáningarfrelsið og réttindi kvenna eiga undir högg að sækja. Með því að draga upp hliðstæður við fortíðina getum við bent áhorfendum á hversu sorglega lítið hefur breyst í áranna rás,“ segir Eldridge og bendir á að oft sé árangursríkt að skoða samtímann með augum fortíðarinnar. „Uppfærslan hér er látin gerast á Ítalíu 1922 rétt áður en Mussolini komst til valda og vísað í allsherjarverkfallið 31. júlí sem fram fór til að mótmæla uppgangi fasista í landinu, en endaði með skelfilegum afleiðingum,“ segir Eldridge og bendir á að ekki þurfi að breyta nema fimm orðum í óperunni til að færa hana auðveldlega til í tíma og rúmi.

Hvernig kemur Eldborg þér fyrir sjónir sem sýningarrými?
„Þetta er fallegur salur og hljómburðurinn stórkostlegur. Óneitanlega er Eldborg óvenjulegt rými þegar kemur að óperuuppfærslum, enda ekki hannað sem leikhús, en í því felst ákveðin áskorun fyrir hönnuði sýningarinnar,“ segir Eldridge, en kollegar hans frá Konunglega óperuhúsinu í London, Alyson Cummins og Natalia Stewart, hanna annars vegar leikmynd og hins vegar búninga. Um sviðshreyfingar sér Jo Meredith og lýsingu hannar Þórður Orri Pétursson.

„Rýmið býður ekki upp á að skapaðar séu senur í litlum rýmum. Allt þarf að vera stórt. Í mínum huga er óperan andstæðan við leikrit Tsjekhov. Hjá Tsjekhov eru sögurnar á smáum skala og hafa gríðarlega mikil áhrif á lítinn hóp fólks, þ.e. nánustu fjölskyldu og þorpsbúa. Í óperum sjáum við sögur þar sem litlar ákvarðanir hafa gríðarleg áhrif á stóran hóp fólks, jafnvel allt þjóðfélagið. Þó að Tosca sé í grunninn ástarsaga manns og konu hefur sagan áhrif á allt samfélagið. Þá kemur að góðum notum að hafa jafnstóran sal og Eldborg þar sem auðveldlega má undirstrika að ástfangna parið er ekki eitt í heiminum. Það liggur ávallt einhver á hleri.“

Ástríðufullur stjórnandi

Meðalaldur óperugesta er fremur hár. Reynir þú markvisst að höfða til ungra áhorfenda?
„Ég er oft spurður að þessu. Þó að óperugestir séu í mörgum tilvikum í eldri kantinum eru nær allir samstarfsfélagar mínir innan óperuheimsins ungt fólk. Ég er því ekki hræddur um framtíð óperunnar. Enginn myndi leggja alla þá vinnu og fórnir á sig sem þarf til að starfa innan óperugeirans nema af hreinni ástríðu. Ég bý ávallt til leik- og óperusýningar fyrir sjálfan mig og hugsa ekki of mikið um viðtökur áhorfenda. Aðalatriðið fyrir mér er að hreyfa við áhorfendum, hvort sem þeir elska eða hata sýningar mínar – því ekkert er verra en ef áhorfendum leiðist á sýningum. Sjálfur fer ég í leikhúsið til að láta hreyfa við mér, til að hlæja og gráta. Ég hef lítinn áhuga á leikhúsi sem aðeins reynir að tala til vitsmuna minna.“

Talandi um ungt samstarfsfólk þá er Bjarni Frímann aðeins örfáum árum yngri en þú. Hvað getur þú sagt mér um samstarf ykkar?
„Reynslan mín af ungum hljómsveitarstjórum hefur ávallt verið góð, því þeir bera með sér ferskan andblæ og kraft sem leikhúsinu er nauðsynlegur. Bjarni Frímann er mjög ástríðufullur stjórnandi. Okkur er báðum umhugað um að miðla sögunni og styðja vel við söngvarana. Það versta sem við sem listrænir stjórnendur gætum gert væri að þröngva okkar hugmyndum á söngvarana. Úrvinnslan þarf að vera samsköpunarferli sem allir eiga hlutdeild í. Mikils er krafist af sviðsleikunum, að ég tali nú ekki um óperusöngvara, sem dæmdir eru út frá hljóðfæri sínu. Óperan er einstaklega krefjandi form og í því felst spennandi áskorun. Ekkert annað listform krefst þess að flytjendur geisli bæði af reisn og þokka á sama tíma og líkaminn þarf að framkalla tóna sem þurfa að hljóma fullkomlega áreynslulausir þó að þeir séu það alls ekki. Ég skil oft á tíðum ekki hvernig óperusöngvarar fara að því að leika og syngja jafnáreynslulaust og þeir í reynd gera. Þetta eru nánast ofurmannlegir hæfileikar.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant