„Ferðalag inn í víðsýni“

Þorleifur Örn Arnarsson og Mikael Torfason voru pennavinir í tíu …
Þorleifur Örn Arnarsson og Mikael Torfason voru pennavinir í tíu ár áður en fóru að vinna saman. Leiksýningin Guð blessi Ísland, sem frumsýnd verður á Stóra sviði Borgarleikhússins í kvöld, er þriðja samvinnuverkefni þeirra á tæpum tveimur árum, en í upphafi næsta árs halda þeir til Þýskalands til að setja upp Snorra-Eddu hjá Þjóðleikhúsinu í Hannover. Hér eru þeir í sérstakri sviðslýsingu í leikmyndinni á Stóra sviði Borgarleikhússins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég held að þetta sé sjónrænasta sýningin sem ég hef gert til þessa,“ segir leikstjórinn Þorleifur Örn Arnarsson um Guð blessi Ísland sem Borgarleikhúsið frumsýnir á Stóra sviðinu í kvöld. Handritið skrifaði Þorleifur í samvinnu við Mikael Torfason og byggir það að stærstum hluta á Rannsóknarskýrslu Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 sem út kom fyrir sjö árum.

„Í sýningunni rekast á þrjár ólíkar heimssýnir. Þess vegna finnst mér gott að tala um verkið sem rokkóperu, því það gefur fyrirheit um að við ætlum að nálgast efniviðinn á tilkomumikinn og sjónrænan hátt. Þótt undirliggjandi séu stórar hugmyndir og djúpstæð rannsókn er birtingarmyndin ekki eins og áhorfendur sitji undir háskólafyrirlestri – síður en svo. Leikhúsið, sem samkomustaður tuga þúsunda áhorfenda, sækir styrk sinn í sambandið við áhorfendur. Líkt og í öllum mínum sýningum notum við beint samband við áhorfendur enda ekki hægt að vera í rannsókn á bak við lokaðar dyr. Til að ná víðtæku samtali við áhorfendur notum við tónlist, myndir, leikhúsið og húmorinn enda er húmorinn besta leiðin að hjarta mannsins,“ segir Þorleifur. „Það væri ekkert mál að kasta skít yfir áhorfendur, en það væri ekkert spennandi,“ bætir Mikael við. Líkt og í Njálu hannar Ilmur Stefansdóttir leikmyndina og Sunneva Ása Weisshappel búninga, en Katrín Hahner semur tónlistina og Aðalheiður Halldórsdóttir sviðshreyfingar.

Leikhúsið rannsóknarstaður

En hvernig datt ykkur í hug að setja á svið skýrslu sem telur ríflega 2.300 blaðsíður?
„Hugmyndin kviknaði í beinu samhengi við Njálu. Undirliggjandi nálgun Njálu var rannsókn á stöðu kvenna, á þjóðarsál Íslendinga og á ættbálkasamfélaginu, hvernig við látum frændhygli standa framar samfélagssáttmálanum. Njála var eins og gamalt wikileaks-skjal um íslenska þjóðarsál. Mig langaði að halda áfram með þessa rannsókn og nota leikhúsið sem sameiginlegan rannsóknarstað. Allt í einu rann það upp fyrir mér að nútíma Íslendingasagan eða wikileaks-skjal samtímans liggur í Rannsóknarskýrslunni.“

Felst ekki mikill munur í því að vinna með þúsund ára gamla sögu með allri þeirri fjarlægð sem í því felst eða taka efni frá tímum sem áhorfendur sjálfir lifðu?
„Ég var ekki búinn að reikna mig í gegnum það hversu nálægt efnið væri okkur í tíma og hvernig allir eru markaðir af þessum atburðum. En mér fannst þetta samt borðleggjandi, því þetta er saga af því hvernig kerfið brást þjóðinni. Ris og fall bankakerfisins er saga svika yfirstéttarinnar við þjóð sína, rétt eins og Njála,“ segir Þorleifur og bendir á að íslenska efnahagshrunið minni sig um margt á leikritaröð Shakespeare um Rósastríðin.

„Þetta er í raun ótrúlega spennandi og þarft verkefni. Vegna smæðarinnar erum við oft hrædd við að skoða hlutina sem standa okkur nærri í tíma. Oft þykir listinni betra að spegla sig abstrakt í stað þess að kljást við erfið viðfangsefni úr okkar samtíma, en það að er ótrúlega mikilvægt að vinna með samtímasöguna,“ segir Mikael.


Uppgjörið var ekki klárað

„Það hefur verið ótrúlega erfitt að vinna þessa sýningu. Ég starfaði með mörgu af því fólki sem er til umfjöllunar í sýningunni og þetta er fólk sem mér þykir persónulega vænt um. Manni lærist líka að neyðast til að skoða hlutina í stærra samhengi. Sköpunarferlið hefur verið ferðalag inn í víðsýni og endurmat. Atburðirnir eru mikla minna svart/hvítir en þegar ég lagði af stað,“ segir Þorleifur og þykir miður hversu einsleit umræðan um orsök og afleiðingar hrunsins hafi verið. „Umræðan sem þyrfti að fara fram hefur ekki farið fram. Við þurfum að spyrja okkur miklu stærri spurninga um orsakir og afleiðingar íslenska efnahagshrunsins,“ segir Þorleifur og bendir á að umræðuvandinn birtist m.a. í því að stjórnmálamenn séu orðnir ófærir um að eiga samskipti við þjóðina. 

Sköpunin kreatíf óreiða

Guð blessi Ísland er þriðja samstarfsverkefni Mikaels og Þorleifs á tæpum tveimur árum, en í árslok 2015 frumsýndi Borgarleikhúsið leikgerð þeirra á Njálu, haustið 2016 frumsýndi Norska þjóðleikhúsið Enemy of the duck sem var sambræðsla þeirra á Villiöndinni og Fjandmanni fólksins eftir Henrik Ibsen og snemma á næsta ári halda þeir til Þýskalands til að setja upp eigin leikgerð á Snorra-Eddu hjá Þjóðleikhúsinu í Hannover sem frumsýnd verður 15. mars 2018.

Að sögn Mikaels og Þorleifs fá þeir óvenjulangan æfingatíma fyrir uppfærsluna sem er sú viðamesta í sögu leikhússins í Hannover, en uppfærslan gæti orðið allt að átta klukkustundir og teygt sig yfir þrjár kvöldstundir. Leikmynd hannar Wolfgang Menardi og búninga hanna Sunneva Ása Weisshappel og Katrína Mogensen. 

Hvers vegna náið þið svona vel saman í leikhúsvinnunni?
„Tíminn var einfaldlega réttur þegar við fórum að vinna saman,“ segir Mikael og rifjar upp að þeir Þorleifur hafi þekkst lengi og verið pennavinir í um tíu ár áður en þeir fóru loks að vinna saman. „Við erum báðir stormsins menn og álitnir „enfant terrible“ í okkar geira þótt við séum mjög ólíkir. Við fundum mjög sterkan samhljóm í nálgun okkar á heiminn,“ segir Þorleifur og rifjar upp að bréfaskrifin hafi líka komið til af því að þeir hafi löngum stundum verið staddir hvor í sínu landinu.

„Mikki var sá fyrsti sem hafði trú á því að ég gæti skrifað,“ rifjar Þorleifur upp og bendir á að samtal þeirra um lífið og listina hafi leitt til þess að þeir fóru að ræða Njálu og fyrr en varði voru þeir komnir á fullt að vinna leikgerð sína. „Mikki hefur bakgrunn í blaðamennsku og mikinn áhuga á „new journalism“, þ.e. hinni amerísku gerð persónugerðrar fjölmiðlunar, sem nýtist í Njálu, Guð blessi Ísland og Eddu. Allt eru þetta verk sem krefjast ákveðinnar blaðamannslegrar rannsóknarvinnu. Við höfum ítrekað rætt hvort hægt sé að sameina hugmyndir nýrrar fjölmiðlunar við leikhúsið, en mín nálgun á leikhúsið, sem er póstdramatísk, hentar þeirri hugsun mjög vel,“ segir Þorleifur og bendir á að Mikael búi yfir þeim eiginleika sem höfundur að telja sjálfsagt að texti hans taki breytingum í hinni skapandi leikhúsvinnu.

„Hann er ávallt með textum sínum að bjóða upp í dans sem endar í leikhúslegum performans. Í þessu felst djúpstæður skilningur á möguleikum leikhúsmaskínunnar og túlkunarinnar. Ég held það væri mjög erfitt að vinna með mér og vera passasamur á sitt, því vinnan mín einkennist af kreatífri óreiðu,“ segir Þorleifur. „Leikhúsið er líka svo „kollektífur“ miðill og algjör andstæða við t.d. bækur þar sem höfundurinn hefur miklu meiri stjórn. Ef ég teldi mig vita svarið við öllu þá myndi ég loka á möguleika leikhússins,“ segir Mikael og tekur fram að það hafi verið mikill og dýrmætur skóli að vinna með Þorleifi. 

Viðtalið í heild sinni má lesa í Morgunblaðinu í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson