Með mennskuna að vopni

„Stærsta lán uppfærslunnar nú var jarðtenging Claire Rutter og Ólafs …
„Stærsta lán uppfærslunnar nú var jarðtenging Claire Rutter og Ólafs Kjartans Sigurðarsonar við verkið sem náðu í sameiningu að byggja upp yfirgengilega spennu sem fleytti dramatískum hápunkti verksins í hæstu hæðir í öðrum þætti. Dramatískari og átakanlegri söguþráður finnst vart milli tveggja einstaklinga líkt og í tilfelli Toscu og Scarpia; holdleg girnd þrungin hégóma, yfirráðum og völdum,“ skrifar Ingvar Bates um Toscu. Ljósmynd/Jóhanna Ólafsdóttir

„Bjarni Frímann Bjarnason var stjarna kvöldsins! Tónlistarkreðsan íslenska hafði beðið lengi eftir frumraun þessa ótrúlega hæfileikaríka tónlistarmanns á óperusviðinu. Og hann stökk ekki yfir garðinn þar sem hann er lægstur; Tosca Puccinis er stráð hindrunum, erfiðum og flóknum skiptingum þar sem engu má skeika svo samhæfing leiks og tónlistar gangi eðlilega upp. Hljómsveitin fylgdi ástríðufullum stjórnanda sínum út í eitt og flutti tónlist sem maður skynjaði loks að á sér fáa hliðstæðu. Strengirnir hljómuðu ómótstæðilega, betur en nokkru sinni áður, jafnvel undir merkjum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, fullir af trega og angist,“ skrifar Ingvar Bates í dómi sínum um uppfærslu Íslensku óperunnar á Toscu sem frumsýnd var á laugardag.

„En sigurinn er ekki aðeins Bjarna Frímans heldur einnig óperustjórans sem hefur mátt sigla með vari og spila úr þröngri stöðu. Og bæði veðjuðu þau á hina öldnu tenórstjörnu sem brást ekki sínum á ögurstundu. Þrátt fyrir háan aldur elskendanna Toscu og Cavaradossi er eitthvað mjög fallegt og mannlegt við uppfærslu Íslensku óperunnar sem allir tónlistarunnendur verða að sjá og heyra á eigin skinni,“ skrifar Ingvar í niðurlagi dóms síns sem lesa má í heild sinni í Morgunblaðinu í dag. 

Ingvar hrósar í hástert söngvurum þremur í aðalhlutverkunum, þ.e. Claire Rutter sem syngur hlutverk Toscu, Ólafur Kjartan Sigurðarson sem túlkar Scarpia og Kristján Jóhannsson sem fer með hlutverk Cavaradossi. 

„Kristján brást ekki aðdáendum sínum,“ segir í rýni um Toscu …
„Kristján brást ekki aðdáendum sínum,“ segir í rýni um Toscu í uppfærslu Íslensku óperunnar. Ljósmynd/Jóhanna Ólafsdóttir

„Kristján hefur allan sinn feril minnt á óheft náttúruafl sem er í eðli sínu gróft og óútreiknanlegt. Það mátti greina eftirvæntingu í salnum eftir flutningi Kristjáns á tenóraríunni þekktu „Recondita armonia“ í fyrsta þætti, söng mörkuðum gríðarlegum krafti en um leið svo fílefldri áreynslu að jaðraði við sprengingu holdsins, hamförum. En tilfinningin var ósvikin og Kristján brást ekki aðdáendum sínum. 

Stærsta lán uppfærslunnar nú var jarðtenging Claire Rutter og Ólafs Kjartans Sigurðarsonar við verkið sem náðu í sameiningu að byggja upp yfirgengilega spennu sem fleytti dramatískum hápunkti verksins í hæstu hæðir í öðrum þætti. Dramatískari og átakanlegri söguþráður finnst vart milli tveggja einstaklinga líkt og í tilfelli Toscu og Scarpia; holdleg girnd þrungin hégóma, yfirráðum og völdum. Ólafur hefði getað sýnt meiri andstyggð, en hann skóp engu að síður sjarmafullt illmenni sem hélt lífi og limum Angelotti, Cavaradossi og Toscu í hendi sér. Bæði söngur og leikur Ólafs var, frómt sagt, frábær, t.a.m. í aríunni „Già, mi dicon venal“. Ein þekktasta aría verksins „Vissi d'arte...“ var í framhaldinu óviðjafnanalega flutt af Rutter sem uppskar gríðarleg fagnaðarlæti.

Þrátt fyrir að Tosca sé fyrst og síðast stórbrotin ástarsaga og átakanleg þar sem framvindan staldrar við í þrungnustu augnablikum verksins, var sýningin kröftug og á köflum fjörug. Þar átti drengjakórinn drjúgan þátt í að gefa sýningunni æskuljóma, von og sakleysi. Sýningin varð því aldrei statísk í hreyfingum og framvindu þrátt fyrir alla dramatíkina, þennan hæga óseðjandi tónvef Puccinis sem hljómsveitin hélt ábúðarfull á lífi líkt og í rúsi. Jo Meredith danshöfundur er sá um sviðshreyfingar hélt öllum leikhópnum á svo eðlilegri hreyfingu og áreynslulausri að maður hugsaði ekki út í það, ekki frekar en út í lýsingu Þórðar Orra Péturssonar sem lýsti upp og tónaði í bakgrunni rýmin og senurnar. Það eina sem skar í augu var full banal miðlægur steindur kirkjugluggi sem umbreyttist í ljótu-kalla-ljósadíóðuandlitsmynd af Mussolini (?) sem grúfði yfir salarkynnum Scarpia í öðrum þætti.

Þokkafull búningahönnun Nataliu Stewart gaf loks áhorfendum raunsanna tengingu við Suður-Evrópu og tíma millistríðsáranna. Inn í þessa heild söng kórinn af bæði krafti og trúfestu við stjórnanda sinn Magnús Ragnarsson sem hafði í nógu að snúast við að stjórna sínu fólki í þeim atriðum sem fóru fram baksviðs, t.a.m. í hliðarómrýmum Eldborgarsalarins. Í heildina gekk leikstjórn Gregs Eldridge út á bæði látlausa og raunsanna nálgun á söguna sem gaf af sér kjarnyrta lýsingu á atburðarrásinni sem ægifögur tónlist Puccinis dreif miskunarlaust áfram, sem er – þegar upp er staðið – í stærsta aðalhlutverkinu. 

Tónlist Puccinis er engu lík. Bjarni Frímann Bjarnason hélt firnasterku gripi á verkinu frá upphafi til enda sem var ekki lítið afrek þar sem hraðatempó var með hægara móti en um leið varð sýningin yfirgengilega áhrifamikil og sönn. Feigðin bjó í hverri hendingu Bjarna Frímanns sem braust fram úr hljómsveitargryfjunni, dáleiðandi líkt og í miðilssvefni, hægum hvíldarpúlsi óperulíkamans, seigfljótandi, meðan sagan hafði sinn gang og blóðið tók að flæða. Jafnvægi milli hljómsveitar og söngvara var einnig hárnákvæmt og sannfærandi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson