Vigdís hlýt­ur verðlaun Jónas­ar

„Ég vona að við mun­um halda upp á af­mæli Jónas­ar …
„Ég vona að við mun­um halda upp á af­mæli Jónas­ar jafn­lengi og við höld­um upp á af­mæli Jesú. Ég vona að enn verði töluð ís­lenskra eft­ir tvö þúsund ár og að Jón­as verði alltaf af­mæl­is­barnið 16. nóv­em­ber, en ég hef áhyggj­ur af stöðu ís­lensk­unn­ar,“ seg­ir Vig­dís Grímsdóttir. mbl.is/Kristinn

„Ég átti ekki von á þessari viðurkenningu. Mér þykir mjög vænt um þetta – kannski vænst um þetta af þeim viðurkenningum sem ég hef hlotið í gegnum tíðina,“ segir rithöfundurinn Vigdís Grímsdóttir sem fyrr í dag hlaut Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar sem afhent voru við hátíðlega athöfn í menningarhúsinu Bergi á Dalvík á fæðingardegi skáldsins. 

Við sama tækifæri var Gunnari Helgasyni veitt viðurkenning fyrir störf í þágu íslenskrar tungu. 

„Þessi viðurkenning kemur mér sannarlega á óvart. Ég er himinlifandi og mjög upp með mér,“ segir Gunnar Helgason rithöfundur sem fyrir stuttu hlaut sérstaka viðurkenningu á degi íslenskrar tungu.

Knýr okkur til að líta í eigin barm

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar eru veitt einstaklingum sem hafa með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu eða riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar. Ráðgjafarnefnd dags íslenskrar tungu gerir tillögu til mennta- og menningarmálaráðherra um verðlaunahafa og rökstyður val sitt. Í ráðgjafarnefnd um Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar sátu að þessu sinni Baldur Hafstað, prófessor emerítus, sem var formaður nefndarinnar, Guðrún Ingólfsdóttir íslenskufræðingur og Dagur Hjartarson kennari og rithöfundur. Verðlaunahafi fær í verðlaun 700 þúsund krónur, Íslensku teiknibókina og skrautritað verðlaunaskjal.

Í rökstuðningi ráðgjafarnefndar segir: „Vigdís hefur haft mótandi áhrif á samtíð okkar og menningu. Með rödd sinni, stundum ögrandi og tilfinningaþrunginni, stundum mildri og sefjandi, hefur hún hrifið okkur með sér og fengið okkur til að takast á við krefjandi spurningar um manneskjuna og þá veröld sem við lifum og hrærumst í. Hún knýr okkur ekki síst til að líta í eigin barm eins og hún gerir sjálf, til dæmis í skáldævisögunni Dísusögu þar sem Dísa á gula kjólnum og Gríms í svarta sjalinu gera upp gömul vandamál og hlífa sér hvergi.“

„Ég vona að við munum halda upp á afmæli Jónasar jafnlengi og við höldum upp á afmæli Jesú. Ég vona að enn verði töluð íslenskra eftir tvö þúsund ár og að Jónas verði alltaf afmælisbarnið 16. nóvember, en ég hef áhyggjur af stöðu íslenskunnar,“ segir Vigdís og tekur fram að gera þurfi vel við þá sem sinni þjóðtungunni og mikilvægt sé að rækta lestraráhuga barna. 

Við erum komin á bjargbrún

„Þegar lífið er orðið þannig að íslensk grunnskólabörn sem alin eru upp hérlendis tala betri ensku en móðurmál sitt þá þurfum við virkilega að fara að skoða málin alvarlega. Þegar íslenskir krakkar í frímínútum tala saman á ensku erum við komin á bjargbrún. Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor við Háskóla Íslands, á svo margar góðar leiðir og stjórnmálamenn þyrftu svo innilega, hvar í flokki sem þeir standa, að fá hjálp og leiðsögn og laga þetta núna, því þetta getur ekki beðið framtíðarinnar,“ segir Vigdís og nefnir sem dæmi að setja þurfi peninga í það að búa til íslenskt viðmót í tölvum í stað ensku.

„Það eru til leiðir, það þarf bara að fara þær. Ég hef áhyggjur af stöðu íslenskunnar og ekki síður áhyggjur af því hversu lítið málið er sett á oddinn. Það er talað um íslenskuna á degi íslenskrar tungu, en allir dagar ársins þyrftu að vera dagur íslenskrar tungu. Við verðum að vernda hana. Okkur var trúað fyrir þessu töfrandi tæki sem íslenskan er. Hún er perla, enda tunga bæði manna og engla þó ekki hafi enn verið hægt að sanna hvaða mál talað er á himnum. Við verðum að vernda íslenskuna og megum ekki láta telja okkur trú um að það sé ekki hægt eða skipti ekki máli. Mér finnst það svo mikill glæpur þegar talað er óvarlega um tunguna að mig langar hreinlega að sækja um byssuleyfi, en ég er svo kurteis að ég geri það ekki.“

Gunnar Helgason les upp úr bókinni Mömmu klikk.
Gunnar Helgason les upp úr bókinni Mömmu klikk. mbl.is/Golli

Vill auðga líf ungmenna

Í rökstuðningi ráðgjafarnefndar um viðurkenninguna sem féll Gunnari í skaut segir: „Gunnar er eldhugi sem vill auðga líf ungmenna, hver sem staða þeirra er í samfélagi okkar. Hann er óþreytandi baráttumaður fyrir málstað íslenskunnar. Hann og hans líkar skynja manna best mikilvægi þess að börnin ánetjist bókum á mikilvægasta þroskaskeiði sínu.“

Það vekur athygli að annað árið í röð fellur viðurkenningin í skaut höfundi sem helgað hefur sig skrifum barna- og unglingabóka, en í fyrra hlaut Ævar Þór Benediktsson viðurkenninguna. „Mér finnst mjög flott hjá nefndinni að minna á það hversu mikilvægt og merkilegt það er að skrifa fyrir börn og unglinga. Ég kýs að líta svo á að þessi viðurkenning sé ekki bara fyrir skrif mín heldur einnig baráttu mína við að auka hróður barna- og unglingabókarinnar,“ segir Gunnar sem hefur verið ötull talsmaður þess að barna- og unglingabækur séu í meiri metum hérlendis og er formaður Samtaka íslenskra barna- og unglingabókahöfunda (SÍUNG). 

Orðum þurfa að fylgja athafnir

Gunnar segir jákvætt skref hafa verið tekið þegar flokki barna- og unglingabóka var bætt við Íslensku bókmenntaverðlaunin og verðlaun Norðurlandaráðs árið 2013. „En verðlaun eru ekki nóg, né heldur að rætt sé um mikilvægi barnabókarinnar. Orðum þurfa að fylgja athafnir og ekki síst fjármagn,“ segir Gunnar sem vill að skólabókasöfnum sé tryggt auka fjármagn til kaupa á nýjum bókum og að fleiri barnabókahöfundar fái listamannalaun svo auka megi framboð nýrra bóka sem lesendur geta speglað sig í. 

Ítarleg viðtöl við báða verðlaunahafa verða í Morgunblaðinu á morgun, föstudag.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vinur þinn gæti borið undir þig hugmynd að sparnaði í tengslum við ferðalög í dag. Allar fjármálaumræður dagsins geta fært þér hagnað þegar til lengri tíma er litið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vinur þinn gæti borið undir þig hugmynd að sparnaði í tengslum við ferðalög í dag. Allar fjármálaumræður dagsins geta fært þér hagnað þegar til lengri tíma er litið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler