„Slær ekki bara á einn streng“

Hjónin Sveinn Einarsson og Þóra Kristjánsdóttir.
Hjónin Sveinn Einarsson og Þóra Kristjánsdóttir. mbl.is/Kristinn

„Bókin slær ekki bara á einn streng,“ segir  Sveinn Einarsson, leikstjóri, leikhússtjóri til tuttugu ára og fræðimaðimaður um bók sína Mitt litla leiksvið sem nýverið kom út. Segir hann bókina á köflum ljúfsára. „Enda gengur enginn áfallalaust í gegnum lífið. En hún segir líka frá dásamlegum hlutum eins og að fá að verða afi kominn hátt á áttræðisaldur – sem er hreinlega kraftaverk. Ég segi frá því í síðasta kaflanum, sem ég held að sé bestur.“

„Þegar ég byrjaði að leggja drög að bókinni fyrir nokkrum árum var ég strax ákveðinn í því að hún skyldi vera aðgengileg, stutt og skemmtileg,“ segir Sveinn og tekur fram að það hafi þó vafist fyrir honum hver formgerð bókarinnar ætti að vera.

„Þetta er hvorki ævisaga né endurminningar í hefðbundnum stíl. Þetta eru minningaleiftur. Eiginlega er þetta samsafn af örsögum eða dæmisögum sem margar hverjar eru líka skemmtisögur,“ segir Sveinn og tekur fram að hann sé ekki endilega aðalpersónan í öllum sögunum. Bendir hann á að meðal aðalpersóna séu höfuðið á Halldóri Laxness, himbrimi á Þingvallavatni, húskötturinn, nashyrningur sem ræðst á þau Þóru Kristjánsdóttur, eiginkonu Sveins, á fílabaki í Nepal eða skrautlegt skrímsli á Balí sem rekur burt illa anda.

Litríkir karakterar

„Þetta er alls ekki saga úr leikhúsinu, þó vissulega komi leiftur þaðan – enda get ég ekki leynt því að ég hef starfað í leikhúsinu í ríflega hálfa öld. Þarna koma við sögu ákaflega litríkir og skemmtilegir karakterar sem verið hafa áberandi í íslensku menningarlífi. Það hefur fylgt mínum störfum að ég hef verið svo heppinn að kynnast óskaplega mörgu skemmtilegu fólki, sem í raun eru forréttindi. Ég hef líka flakkað talsvert í útlöndum, en við hjónin vorum býsna ferðaglöð, auk þess sem vinna mín á vegum Alþjóðasamtaka leikhúsmanna, fyrir Evrópuráðið og UNESCO kallaði á ferðalög og samskipti við mikinn fjölda gáfumenna, sem hvert um sig átti forvitnilega sögu og kunni frá mörgu að segja. Hvatinn að því að skrifa bókina er í raun að mig langaði að deila með öðrum þessari reynslu minni,“ segir Sveinn. 

Inntur eftir því hvort hann hafi notast við gamlar dagbækur þegar hann rifjaði upp liðna tíma, svarar Sveinn því neitandi. „Í raun ekki. Ég er nýlega fluttur og það er einhver mesta hremming sem getur komið fyrir mann því þá hrannast yfir alls kyns minningar og gömul skjöl. Meðal þess sem ég fann voru nokkrar gamlar tilraunir til að halda dagbók,“ segir Sveinn, sem lýsir því í Mínu litla leiksviði hvernig hann hafi ávallt gefist upp á dagbókarskrifum eftir stuttan tíma þrátt fyrir fögur fyrirheit um annað.

„En í tíu ár, frá því að Jónas Hallgrímsson var 200 ára, hef ég hins vegar skrifað dagbók upp á hvern dag. Ég veit ekkert af hverju ég tók upp á því þá. Þetta kom bara yfir mig,“ segir Sveinn og tekur fram að dagbókarskrifin komi sennilega í stað þess að vera á facebook. „Eftir á að hyggja sé ég hvað þetta er merkileg heimild, ekki endilega um mig heldur um það sem er að gerast,“ segir Sveinn og nefnir í því samhengi sjúkdómssögu eiginkonu sinnar sem glímir við erfiðan sjúkdóm.

Geti lifað við reisn

„Ég er núna í nokkur ár búinn að vera mjög hissa á því hvernig búið er að öldruðum. Ég hef kynnst mörgu góðu hugsjónafólki í kerfinu, en höfuðábyrgðina bera stjórnmálamenn sem segja eitt og gera ekkert. Það er alltaf verið að leggja áherslu á að aldraðir eigi að geta séð um sig sjálfir heima, sem við hjónin gerðum í allt að tíu ár, en svo byrjar maður nánast á núllpunkti þegar maður þarf á þjónustu að halda og það er náttúrlega ekki rétt,“ segir Sveinn og bendir á að þó flestallir vilji verða gamlir vilji enginn vera gamall.

„Á meðan litið er á langlífi sem heppilegan valkost þá verður að vera einhver meining í því að fólk geti lifað við reisn til æviloka, þannig að fólk upplifi sig ekki niðurlægt,“ segir Sveinn og áréttar að hann sé ekki flokkspólitískur, enda hafi hann aldrei verið skráður í stjórnmálaflokki, þó hann hafi sínar skoðanir og stundum allmiklar. „Mér finnst hins vegar að mér beri skylda til að taka undir með þeim sem hafa færri málsvara í samfélaginu,“ segir Sveinn. 

Sveinn ræðir bók sína við Jórunni Sigurðardóttur á höfundakvöldi í Gunnarshúsi í kvöld kl. 20. Þar ræðir Silja Aðalsteinsdóttir líka um bók sína Allt kann sá er bíða kann sem segir frá lífshlaupi Sveins R. Eyjólssonar. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler