Um sýnd og reynd í ólíkum heimum

„Samleikur Hilmis, Kolbeins og Salóme er afar góður,“ segir í …
„Samleikur Hilmis, Kolbeins og Salóme er afar góður,“ segir í rýni um SOL í uppfærslu Sóma þjóðar. Ljósmynd/Hörður Sveinsson

„Sóma þjóðar tekst með SOL að velta upp áhugaverðum spurningum um einmanaleikann, hvar og hvernig nánd geti skapast og muninn á sýnd og reynd án þess endilega að ætla sér að veita áhorfendum öll svörin. SOL er glúrin og ljúfsár sýning sem óhætt er að mæla með, líka fyrir þá sem lítinn eða engan áhuga hafa á heimi tölvuleikja,“ skrifar Silja Björk Huldudóttir í lokaorðum leikdóms um SOL sem birtist í Morgunblaðinu í dag. 

Verkið, sem Hilmir Jensson og Tryggvi Gunnarsson skrifuðu, hverfist um hinn félagsfælna Davíð (Hilmir Jensson) sem lifir og hrærist í heimi tölvuleikja og spjallrása. Hann forðast eftir fremsta megni að fara út úr húsi og lætur til að mynda senda sér mat og aðrar nauðsynjavörur heim.

„Haukur (Kolbeinn Arnbjörnsson), vinur Davíðs, reynir árangurslaust að draga hann með sér á djammið – enda sannfærður um að áfengi og skyndikynni veiti lífsfyllinguna sem vantar. Hann varar Davíð við að lifa eingöngu í heimi tölvutækninnar þar sem ómögulegt er að vita hvort aðrir leikmenn séu í reynd það sem þeir segjast vera. Davíð gagnrýnir á móti vin sinn fyrir að taka virkan þátt í þeirri ímyndarsköpun sem viðgengst á samfélagsmiðlum þar sem við reynum flest – ef ekki öll – að draga upp fegraða mynd af sjálfum okkur og lifa lífinu samkvæmt forskrift annarra um hvað teljist við hæfi, smart eða rétt.

Í einum netleikjanna sem Davíð spilar kynnist hann Sol (Salóme Rannveig Gunnarsdóttir) sem unnið hefur sér það til frægðar að vera stigahæsti spilari leiksins og nokkurs konar leiðtogi. Netspjall þeirra leiðir til þess að þau hittast í raunheimum og þá kemur ýmislegt á óvart, en ekki má gefa of mikið upp til að skemma ekki fyrir væntanlegum áhorfendum.

Fléttan er haganlega saman sett hjá Hilmi og Tryggva, sem einnig leikstýrir sýningunni af miklu öryggi og hannar búninga sem vísa með góðum hætti í annars vegar leikjaheiminn og hins vegar samtímann. Dregnar eru upp forvitnilegar hliðstæður milli raunveruleikans og sýndarheima og áhugaverðra spurninga spurt um hvar og hvernig raunveruleg nánd í samskiptum geti þróast. Óhætt hefði verið að þétta fyrri hluta verksins örlítið betur og hléið klippti framvinduna óþarflega mikið í sundur, en að öðru leyti var uppbyggingin fín og höfundar héldu sig réttum megin við melódramað sem daðrað er við í seinni hlutanum,“ segir í leikdómnum. Í framhaldinu víkur rýnir að umgjörð sýningarinnar, en leikdóminn má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag. 

„Samleikur Hilmis, Kolbeins og Salóme er afar góður. Kolbeinn dregur upp skemmtilega mynd af manni sem rembist eins og rjúpan við staurinn að falla að stöðlum samfélagsins. Hilmir er trúverðugur sem félagsfælni tölvunördinn sem kynnist óvænt ástinni sem breytir honum til frambúðar. Salóme er töffaramennskan uppmáluð í sýndarveruleikanum, en sýnir á sér brothættari hliðar í raunheimum.

Hjartað í sýningunni er ástarsamband Davíðs og Solar sem útfært er með áhrifaríkum hætti í fallegum dansi úr smiðju Sigríðar Soffíu Níelsdóttur. Sá dans kallast með táknrænum hætti á við stríðsdansinn sem þau hafa áður stigið í sýndarveruleikanum. Snarpar, harðar og taktfastar hreyfingar stríðsdansins hafa vikið fyrir mýkt og húmor ástarinnar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vinur þinn gæti borið undir þig hugmynd að sparnaði í tengslum við ferðalög í dag. Allar fjármálaumræður dagsins geta fært þér hagnað þegar til lengri tíma er litið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vinur þinn gæti borið undir þig hugmynd að sparnaði í tengslum við ferðalög í dag. Allar fjármálaumræður dagsins geta fært þér hagnað þegar til lengri tíma er litið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler