Það er líf þarna úti

„Ég þreytist aldrei á því að segja að alheimurinn er …
„Ég þreytist aldrei á því að segja að alheimurinn er fyrir alla,“ segir Sævar Helgi Bragason landsþekktur vísindafræðari og höfundur bókarinnar Geimverur – Leitin að lífi í geimnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Meðan við getum hvorki sannað né afsannað að líf leynist á öðrum hnöttum væri mjög óvísindalegt að útiloka möguleikann. Sjálfur er ég handviss um að það sé líf þarna úti, enda væri annað útilokað í ljósi fjölda stjarna,“ segir Sævar Helgi Bragason landsþekktur vísindafræðari og höfundur bókarinnar Geimverur – Leitin að lífi í geimnum. Í bókinni skoðar hann hvort við séum ein í alheiminum, hvers vegna ekki hafi enn verið hægt að sanna tilvist geimvera og hvernig þær gætu litið út.

Lét sig dreyma um geimferðir

Í fyrra sendi þú frá þér handbókina Stjörnuskoðun fyrir alla fjölskylduna. Lá beint við að næsta bók yrði um geimverur?

„Nei, en þetta er eitt af mörgu sem ég brenn fyrir. Upphaflega planið var að skrifa um Jörðina, uppáhaldsplánetuna mína, og ég mun gera það einhvern daginn. Leitin að lífi í geimnum varð hins vegar ofaná vegna þess að sá angi stjarnvísinda er mjög virkur þessi misseri. Þetta er bókin sem ég hefði viljað lesa þegar ég var tólf ára,“ segir Sævar Helgi og tekur fram að bókin fjalli ekki bara um stjarnvísindi heldur líka lífvísindi, jarðfræði, efnafræði og eðlisfræði sem allar sameinist undir merkjum stjörnulíffræðinnar.

Hvernig kviknaði áhugi þinn á geimnum?

„Ég var átta ára þegar ég fékk fyrst tækifæri til að kíkja í gegnum sjónauka hjá frænda mínum, Snævari Guðmundssyni, og þá varð ekki aftur snúið. Mér fannst þetta svo æðislegt, spennandi, tilkomumikið, fallegt og heillandi. Í framhaldinu varði ég heilu og hálfu kvöldunum í kraftgallanum úti í garði að skoða stjörnubjartan himininn með handsjónauka eða berum augum og lét mig dreyma um að ferðast einhvern tímann út í geim,“ segir Sævar Helgi og bendir á að hann hafi alltaf ætlað sér að verða reikistjörnujarðfræðingur. „Draumurinn var að taka þátt í því að leita að lífi á Mars og öðrum hnöttum. En svo þróuðust hlutirnir á annan veg og ég sé ekkert eftir því, vegna þess að það er ótrúlega gaman að fá tækifæri til að spjalla við skólakrakka um það sem mér finnst skemmtilegast í heiminum.“

Af hverju er svona mikill áhugi á lífi á öðrum hnöttum?

„Ég held að forvitni okkar um heiminn skýri áhuga okkar á möguleikanum á lífi á öðrum hnöttum. Spurningin er tengd ákveðinni dulúð og hefur löngum verið hluti af menningu okkar í gegnum bókmenntir og kvikmyndir. Fólk veltir því eðlilega fyrir sér hvernig geimverur gætu litið út og hvort þær yrðu okkur vinveittar. Ég er í bókinni frekar skeptískur gagnvart því að geimverur hafi komið til Jarðar í heimsókn eða séu á leiðinni hingað, en það eru ýmsir staðir í sólkerfinu okkar þar sem líf gæti hafa þrifist eða þrífst,“ segir Sævar Helgi og nefnir í því samhengi Enkeladus og Títan, sem bæði eru meðal tungla Satúrnusar, og Evrópa, eitt tungla Júpíters.

Óður til Carls Sagan

Hvar leitaðir þú fanga þegar þú skrifaðir bókina?

„Ég leitaði fanga mjög víða. Ég fylgist mjög vel með rannsóknum sem eiga sér stað og er tengiliður ESO á Íslandi,“ segir Sævar Helgi, en ESO stendur fyrir European Southern Observatory eða Stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli.

„Ég kynnti mér Mars mjög vel þegar ég var í jarðfræðinámi mínu við Háskóla Íslands. Svo leitaði ég í mínar uppáhaldsbækur sem fjalla um þetta viðfangsefni og skrifaðar eru af vísindamönnum sem eru að leita að lífi og velta því fyrir sér,“ segir Sævar Helgi og tekur fram að hann sé þar undir miklum áhrifum frá Carl Sagan. „Þetta er því nokkurs konar óður til hans. Ég nálgaðist efnið þannig að bókin væri ekki upptalning á staðreyndum heldur reyni ég frekar að segja sögur af því hvað fundist hefur hingað til, hvar hafi verið leitað og segja frá vísindafólkinu sem átt hefur veigamikinn þátt í uppgötvunum og rannsóknum á þessu sviði,“ segir Sævar Helgi og nefnir sem dæmi að hann segi í bókinni frá Ceciliu Payne. „Í raun ætti nafn Payne að vera haldið jafn mikið á lofti og nöfnum Kóperníkusar, Galíleós, Newton, Einstein, Hubble og allra hinna karlanna. En vegna kynferðis vita fæstir hver Payne var. Hún gerði hins vegar eina helstu uppgötvun sögunnar sem er að stjörnur eru sólir.“

Frumefnin heilla

Að sögn Sævars Helga er það sér mikil hvatning við skrifin að heimsækja grunnskóla og fræða nemendur um geiminn.

„Ég rek mig ítrekað á að krakkarnir eru aldrei að spyrja mig um svarthol, fjarreikistjörnur eða miklahvell heldur alltaf um „black hole“, „exoplanet “ og „big bang“. Þau kunna ekki íslensku heitin sem við eigum yfir alla þessa hluti. Skortur á aðgengi að góðu efni á íslensku um vísindi er því miður staðreynd og því vil ég leggja mitt af mörkum til að varðveita íslenskuna eins og hægt er og þá veitir ekki af að skrifa fyrir unga jafnt sem aldna,“ segir Sævar Helgi og tekur fram að nýja bókin sé aðgengilegt fyrir alla frá 10 ára og upp í 100 ára. „Ég þreytist aldrei á því að segja að alheimurinn er fyrir alla.“

Er bókin um Jörðina væntanleg úr þinni smiðju á næsta ári?

„Hún er að minnsta kosti á listanum yfir þær bækur sem mig langar að skrifa. Í heimsóknum mínum í skólana er ég mjög mikið spurður um svarthol þannig að það efni kallar líka á mig. Á næsta ári mun ég í samvinnu við Katrínu Lilju Sigurðardóttur efnafræðing skrifa um frumefnin sem ég held að verði mjög skemmtilegt að miðla til krakka. Við erum öll búin til úr frumefnum og einhvern veginn urðu þau öll til.“

Stefnir þú að því að senda frá þér bók árlega?

„Mig langar að skrifa eina bók á ári og ég held að það sé alveg gerlegt. Þetta er auðvitað svakalega mikil vinna, ekki síst ef þetta á að vera vandað efni og vel gert, en á sama tíma er þetta afar gefandi og skemmtilegt – sérstaklega þegar ég fæ viðbrögð frá krökkum í hópi lesenda. Það er ómetanlegt þegar maður sér áhuga krakkanna kvikna á vísindum.“

Spyrja krakkarnir þig oft spurninga sem þú veist ekki svarið við?

„Já, og það er frábært því þá fæ ég tækifæri til að læra eitthvað nýtt. Við eigum enn svo mikið eftir ólært um heiminn í kringum okkur. Það sem við vitum núna er alveg stórkostlegt, en það sem við eigum eftir að uppgötva er jafnvel enn stórkostlegra,“ segir Sævar Helgi að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant