Frétti af verðlaununum frá sviðsmanni

Daníel Bjarnason hlaut dönsku sviðslistarverðlaunin í gærkvöldi fyrir óperu ársins …
Daníel Bjarnason hlaut dönsku sviðslistarverðlaunin í gærkvöldi fyrir óperu ársins fyrir sýninguna Brothers. Hann gat ekki veitt verðlaununum viðtöku þar sem hann mundaði tónsprotann í Hörpu á sama tíma við frumflutning á Brothers hér á landi. mbl.is/Valli

Sviðsmaður í Hörpu færði tónskáldinu Daní­el Bjarna­syni tíðindin að hann hefði hlotið dönsku sviðslistarverðlaunin Reumert fyrir óperu ársins þegar hann hafði nýlokið við að stjórna óperunni Brothers í Eldborg í Hörpu í gær, sýningunni sem hann hlaut verðlaunin fyrir.

„Ég stóð við hliðina á Kasper Holten [leikstjóra Brothers], þá var hann einmitt að fara að gá í símanum sínum hvernig þetta hefði farið. Hann varð ægilega glaður líka, við óskuðum hvor öðrum til hamingju og svo varð þetta bónusgleði fyrir utan allt hitt,“ segir Daníel í samtali við mbl.is.

Íslenska óper­an sýn­di óperuna Brothers í gærkvöldi í sam­starfi við Jósku óper­una og Sin­fón­íu­hljóm­sveit Íslands í Eld­borg Hörpu á Lista­hátíð. Óperan er sú fyrsta sem Daníel semur og var frumsýnd í Árós­um í ág­úst 2017 við afar góðar viðtök­ur jafnt áhorf­enda sem gagn­rýn­enda.

Daníel segir að fregnirnar af verðlaununum hafi blandast saman við gleðina sem myndaðist eftir sýninguna í gær. Hann gerði sér ef til vill ekki grein fyrir hversu stór dagur var í vændum, en hann undirbjó sig eins og fyrir hvern annan tónleikadag. „Það var eftirvænting fyrir kvöldinu en að öðru leyti reyndi ég bara að undirbúa mig eins og fyrir alla tónleika. Þetta var frekar rólegur dagur, ég fór í sund með strákunum mínum og var síðan kominn niður í Hörpu um hálf fimm og reyndi að koma mér í rétt hugarástand,“ segir Daníel.

Óperan Brothers var sýnd í Hörpu í gær á Listahátíð …
Óperan Brothers var sýnd í Hörpu í gær á Listahátíð í Reykjavík. Ljósmynd/Jóhanna Ólafsdóttir

Frábært að geta stjórnað eigin óperu

Þetta er í fyrsta skipti sem hann stjórnar eigin óperu og segir hann það hafa verið mjög ánægjulegt. „Það er öðruvísi en að vera úti í sal. Maður er nær verkinu að mörgu leyti og mér finnst það frábært að geta gert það, að koma að flutningnum þar sem þetta er lifandi listform sem verður til á staðnum,“ segir Daníel.

Hann segir að verðlaunin séu mikill heiður, sérstaklega í ljósi þess að Brothers er hans fyrsta ópera. „Já, það er hvatning til frekari tilrauna á óperusviðinu, enda hef ég fullan áhuga á því að spreyta mig áfram við það þó að það verði ekki alveg strax á morgun sem ég byrja á næstu óperu.“  

Einmanalegt en töfrandi ferli

Daníel er heillaður af óperuforminu þrátt fyrir einmanaleikann sem getur fylgt því að skrifa heila óperu, enda um langt og vandasamt verk að ræða. „Maður er einn með sjálfum sér að skrifa tónlistina og úthugsa hana ansi lengi og svo er allt í einu er komið fullt af fólki sem fer að vinna að þessu; söngvarar, leikstjóri, búningahönnuður og sviðsmynd og þá fer þetta aðeins út úr manns höndum, en það er þessi tími þar sem maður er að berja saman verkið einn með sjálfum sér sem er þessi „magíski“ tími samt þar sem þetta gerist.“

Oddur Arnþór Jónsson í hlutverki annars bróðursins.
Oddur Arnþór Jónsson í hlutverki annars bróðursins. Ljósmynd/Jóhanna Ólafsdóttir

Nýjar, góðar óperur halda listforminu á lífi

Að mati Daníels á óperuformið alltaf við og ekki síst í dag þegar áreiti í samfélaginu hefur líklega sjaldan verið meira.  „Það eru fáir staðir þar sem fólk getur komið saman og upplifað eitthvað saman án þess að það sé í gegnum sjónvarp eða snjalltæki, ég held að það verði mikils virði í framtíðinni,“ segir Daníel. Þá telur hann að óperuformið virki vel og hafi alltaf gert. „Þetta er dramatísk frásögn í tónum. Auðvitað breytast tímarnir og verkin breytast með en það sem ég held að haldi óperunni á lífi að það verði áfram til góðar óperur.“

„Betra að hafa eina sýningu heldur en enga“

Sýningin í gær á Brothers, sem fjallar um stríð, bræðralag og ástir, var einstök og óperan verður ekki sett upp aftur hér á landi, að minnsta kosti um sinn. „Það er náttúrulega svolítið brjálæðislegt, en það er betra að hafa eina sýningu heldur en enga,“ segir Daníel.

Hann segir ástæðuna fyrir því að hafa sýningarnar ekki fleiri skýrist af því að fyrirvari uppsetningarinnar var ekki mikill og þar sem ákveðið var að hafa hana hluta af Listahátíð var ákveðið að hafa einungis eina sýningu. „En við sjáum til hvort að það komi ekki annað tækifæri á Íslandi, það er aldrei að vita.“

Óperuunnendur sem komust ekki í Hörpu í gær þurfa þó ekki að örvænta þar sem sýningin var tekin upp og verður sýnd á RÚV von bráðar. „Það er bara gaman en auðvitað vita það allir sem þekkja að það er annað að sjá eitthvað í sjónvarpi en að vera á staðnum, en engu að síður frábært að það sé í boði,“ segir Daníel.  

Daníel Bjarnason tónskáld hlakkar til að spreyta sig frekar við …
Daníel Bjarnason tónskáld hlakkar til að spreyta sig frekar við óperutónsmíðar. mbl.is/Valli

Fullur tilhlökkunar yfir „Klassíkinni okkar“

Fram undan hjá honum eru ótal verkefni áður en hann getur farið að einbeita sér að óperuskrifum á ný. Sjálfur segist hann hlakka einna mest til tónleika í haust með Sinfóníuhljómsveit Íslands undir yfirskriftinni „Klassíkin okkar“ þar sem landsmönnum gefst kostur á að velja sína uppáhalds íslensku tónsmíð.

„Það er mjög skemmtilegt verkefni og ég hef verið heppinn að stjórna því í þessu tvö skipti sem það hefur verið. Þetta er skemmtilegur upptaktur og byrjun á starfsárinu hjá Sinfóníunni. Þetta er eitthvað sem þjóðin tekur þátt í og hefur verið vel tekið. Það er gaman að byrja árið á svona tónleikum þar sem þjóðin velur efnisskrána. Ég hlakka til þess,“ segir Daníel.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant