Raunverulegt draumalandslag

Þýska myndlistarkonan Karin Sander
Þýska myndlistarkonan Karin Sander mbl.is/Eggert

Tilkynnt hefur verið að tillaga þýsku myndlistarkonunnar Karin Sander, Pálmatré, hafi borið sigur úr býtum í samkeppni um útilistaverk í hinni nýju Vogabyggð í Reykjavík.

Verkið gerir ráð fyrir að tveimur pálmatrjám sé komið fyrir í stórum turnlaga gróðurhúsum og að frá þeim stafi ljós og hlýja. Þetta var ein viðamesta samkeppni um útilistaverk sem efnt hefur verið til í Reykjavík og í lokakeppnini tóku þátt kunnir listamenn; auk Sander þau Alicja Kwade, Carl Boutard, Elín Hansdóttir, Finnbogi Pétursson, Karin Sander, Rósa Gísladóttir, Tomás Saraceno og danski listamannahópurinn þekkti A Kassen.

Auk þess að velja tillögu Sander til að útfæra ákvað dómnefnd að kaupa verk eftir A Kassen, Endless Lamppost, en þar er lagt til að einn 30 metra ljósastaur komi í stað venjulegs staurs við einhverja götu eða torg. Í umsögn dómnefndar segir að verkið sé „óður til verka Constantin Brancusi, Endless Column, og vísar því í listasöguna um leið og tillagan vekur spurningar um af hverju borgin lítur út eins og hún gerir. Tillagan er húmorísk og bætir ljóðrænni vídd í hversdaginn í þessu nýja hverfi.“ Allar tillögur listamannanna má skoða á Kjarvalsstöðum.

Andblær suðrænna landa

Í samkeppninni var kallað eftir verkum sem myndu styrkja þau markmið að myndlist verði veigamikill og afgerandi hluti umhverfis og mannlífs í Vogabyggð og skapa þannig örvandi umhverfi fyrir alla aldurs- og þjóðfélagshópa. Mótuð var sú metnaðarfulla hugmynd að myndlist yrði hluti af innviðum hverfisins og því er fjármögnum listaverka þar samstarf lóðaeigenda og Reykjavíkurborgar.

Dómnefnd var einhuga um að velja tillögu Karin Sander og segir að hún sé „óvænt, skemmtileg og djörf. Pálmatrjám er komið fyrir í tveimur sívölum, turnlaga gróðurhúsum sem sett eru niður við jaðar miðlægs torgs við bakka Ketilbjarnarsíkis ... Pálmatré bera með sér andblæ suðrænna landa, eins og höfundur tillögunnar bendir á. Þau eru tákn heitra og framandi staða og menningar og fela um leið í sér minni um útópíu þar sem paradísarástand ríkir. Hér skjóta þau rótum í köldu og hrjóstrugu landi – rétt eins og fólk frá framandi slóðum sem hefur sest hér að.“

Sander er fædd árið 1957 og hefur verið áberandi í alþjóðlegu myndlistarlífi. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna og eru listaverk hennar í eigu virtra og þekktra safna. Hún hefur unnið fjölda stórra verka, bæði tímabundin og varanleg verk í almenningsrými.

Sander býr í Berlín en hefur verið tíður gestur hér á landi frá 1992. Hún hefur átt verk hér á fjölda sýninga og vinnur með i8 galleríi. Hún segir að sér hafi strax þótt samkeppnin um verk í Vogabyggð spennandi og hafi hún skilað inn tveimur tillögum eftir að hún var valin í lokaúrtakið. Fyrst sýndi hún hér á landi í hinum rómaða sýningarsal Péturs Arasonar og Rögnu Róbertsdóttur, Annari hæð, að Laugavegi 37.

„Það var árið 1992 sem ég var með sýningu í safni í Mönchengladbach og sá í dagblaði stóra ljósmynd af íslensku landslagi. Ég hreifst af henni og sagði að þangað langaði mig að fara. Næsta dag barst mér svo boð frá Pétri um að sýna – svona rætast óskir,“ segir Sander og brosir.

„Þegar ég hafði sett upp þessa fyrstu sýningu mína hér fór ég í þriggja vikna ferð kringum landið, tók mér góðan tíma hér. Og síðan hef ég komið oft, eignast hér góða vini og sýnt reglulega í i8.“

Þegar við ræðum tillöguna Pálmatré þá segir Sander að þau verk sem hún hefur skapað fyrir opinberan vettvang í mörg ár snúist á vissan hátt um bakgrunn og aðstæður þeirra rýma og stofnana þar sem þau eiga að vera, á sögulegan og félagslegan hátt. „Ég legg alltaf í rannsóknir og heimildavinnu til að finna réttu „myndina“ og þýði þær hugmyndir á minn hátt í myndverk.

Hér fengum við sem vorum valin í samkeppnina framúrskarandi kynningu á svæðinu og öllum aðstæðum. Nú er mikið byggt hér í Reykjavík og í Vogabyggð er verið að móta nýtt hverfi. Markmiðið með þátttöku listamannanna í samvinnu við arkitekta og hönnuði er að það verði ekki einkennalaust úthverfi heldur staður með merkingu og sérkenni, með ríkuleg lífsgæði.“

Hún segist ekki hafa fengið hugmyndina að vinningsverkinu strax, það gerist aldrei. „Ég velti þessu öllu fyrir mér, teikningum, umhverfinu, tek myndir, og ég skoðaði líka vel þau listaverk sem þegar eru fyrir í almenningsrými í Reykjavík og á Íslandi, og þau eru mörg. Svo þróaði ég tvær hugmyndir og hvor þeirra hefði getað verið tvö verk eða vinna má út frá þeim... fólk mun búa á þessu svæði og ég reyndi að sjá aðstæður þess fyrir mér.“

Tilfærsla með ímyndun

Sander segir tillöguna Pálmatré fjalla um landslag og hið exótíska, um fjarlæg lönd og hvað fólk ferðist nú auðveldlega út um heiminn. Og hvað ímyndunaraflið er öflugt.

„Í þessu verki tekst ég á við umhverfið og samfélagið og set í alþjóðlegt samhengi. Við að hugsa um pálmatré hér á landi kviknar tilfinning um að vera í fríi á fjarlægum stað. Ímyndunaraflið færir mann að pálmatrjám á ströndu þar sem legið er í sól og synt í sjónum. Það er tilfærsla með ímyndun, rétt eins og þegar fólk setur í gluggana hjá sér kaktusa ættaða úr eyðimörkum, plöntur sem kveikja drauma í huga þess. Í þessu verki stækka ég þá hugmynd.“

Sander segir verkið líka stuðla að óvenjulegum og óvæntum samskiptum. Fólk getur hist við pálmatré á torgi hér á Íslandi og getur líka farið inn til trjánna og jafnvel sest þar niður í augnablik, og upplifað að það sé einhversstaðar langt í burtu. Á sumrin þegar veðrið sé gott hér, og veðurfar fari hlýnandi með hnattrænni hlýnun, þá eigi pálminn mögulega sífellt betur heima hér. En á veturna þegar veðrið sé í sínum kaldasta ham þá vísi pálmatrén til suðurhafa og hlýjunnar annarsstaðar á jörðinni. Og vissulega er spennandi að sjá pálmatré á torgi í Vogabyggð fyrir sér í kuldatíð og snjó eins og er í borginni núna.

Blaðamaður hefur á orði að vissulega væri áhugavert að sitja í rakanum inni hjá pálmatré núna og horfa í átt að svævi þakinni Esjunni.

„Já, og þegar snjó kyngir niður í skammdeginu þá verða trén svo sannarlega staðir fyrir drauma,“ segir Sander. „Auðvitað skiptir líka máli að hér er orkan til staðar, grænt rafmagn fyrir lýsinguna og heita vatnið fyrir upphitunina í sívalningunum með trjánum. Nú er víst átta gráðu frost í Reykjavík; við að stíga inn til pálmatrjánna myndi hitinn hækka um einar þrjátíu gráður.“

Verða „ekta“ pálmatré

Fyrirhugað er að koma pálmatrjánum fyrir á torgi í byggðinni miðri, þar sem göngubrú liggur yfir að smábátahöfninni; verða gróðurhúsin með pálmunum eins konar hlið við inn- eða útganginn í hverfið. „Nú þarf að breyta teikningunum og hugmyndunum í strúktúra sem virka. Það er eitt að hafa hugmynd, fantasíuna, annað að útfæra hana tæknilega,“ segir Sander.

„Við undirbúning tillögunnar vann ég með verkfræðingum að útfærslunni, sem og garðyrkjufræðingum og fyrirtæki í Hollandi sem hefur gert gróðurhús og sívalninga eins og þá sem trén standa inni í. Eins var ég í sambandi við fyrirtæki sem hefur gert ker til að geyma fiska í í hafinu, fyrir rótakerfið. Þessi gróðurhús verða að geta staðist verstu veður hér og verða að halda hita og raka eins og vera ber. Einangrunin verður að vera mjög góð hér í norðrinu og strúktúrarnir verða að vera sterkir. Húsin verða kynt með hitaveitu og í þeim logar útfjólublátt ljós alla daga ársins, svo þau verða fallega upplýst í skammdeginu. Það er mikilvægt fyrir trén en líka fólkið sem horfir á þau. Við vitum hvað gróðurhúsin hér á landi eru falleg þar sem þau ljóma upplýst á veturna.“ Og hún bætir við að nú sé komið að því að reikna þetta allt í smáatriðum og gera lokaútfærslu en turnarnir séu hugsaðir 11 metra háir, fjögurra metra breiðir og dyrnar sem hægt er að ganga inn um 2,3 metra háar. „Svo nú verður reiknað og rætt, í samstarfi með borgarskipulaginu, arkitektum og verkfræðingum; og það er ekki útilokað að útfærslan breytist, þetta gæti orðið einn turn, enn stærri, eða þrír...“

Þegar spurt er um pálmatrén, sem margir hafa eflaust áhuga á, segir hún að þau verði ekki lítil þegar þau verði sett upp, til dæmis um tveggja metra há. Og muni svo stækka. Þá verði mikilvægt að velja réttu tegundina, „ekta“ pálmatré, til að hafa ímynd suðrænna pálma sem sterkasta í huga þeirra sem sjá verkið.

Alparnir á engið

Áhugasamir geta kynnt sér hin fjölbreytilegu verk Karin Sander á heimasíðu hennar, bæði mini galleríverk, eins og hún hefur til að mynda sýnt hér, og stærri samfélagsleg verkefni og útilistaverk.

„Hver staður sem ég tekst á við að gera verk á hefur sín sérkenni en ef rauð lína gengur gegnum verkin mín þá er það að hugsa um landslag og umhverfi á samtímalegan hátt og sem einhverskonar draumalandslag,“ segir hún. „Sem dæmi býr fólk í Miðausturlöndum við veðurblíðu alla daga ársins og til að upplifa sitt draumalandslag þá ferðast það upp í Alpana og vill kynnast rigningu og snjókomu, því sem við köllum slæmt veður. Við hér í norðrinu njótum þess hins vegar að fara til hlýrri landa og þykir ekki verra að ekki rigni.

Einu sinni var mér boðið að gera verk í safni í Hannover, þar sem 10 til 15 listamenn unnu út frá úthverfum borgarinnar. Mér var úthlutað fagurgrænu engi fyrir framan húsagötu og hvað átti ég að gera með það? En ég stakk upp á því að skipt yrði á landslagi, að við sendum hluta engisins upp í Alpana en fengjum í staðinn hluta af fjallalandslagi, kletta og mosa. Þannig varð til draumalandslag andspænis þessum húsum. Hér í þessu verkefni í Reykjavík má segja að þessi hugmynd skjóti aftur upp kollinum, á gjörólíkan hátt. Fyrir miðju framkvæmdasvæðisins í nýju hverfi mun verða til draumalandslag sem gerir staðinn enn sérstakari.“

Draumur verður staðreynd

Nú þegar búið er að velja sigurtillögu í samkeppninni segir Sander að hin raunverulega vinna hefjist. „Draumurinn er að breytast í staðreynd, draumalandslagið verður raunverulegt,“ segir hún og brosir.

„Nú verður verkið fellt inn í skipulagið og fínstillt svo hlutföllin og ásýndin passi við byggingarnar umhverfis. Því auðvitað taka öll verk breytingum á leiðinni frá hugmynd að endanlegri útfærslu, hvort sem þau birtast í galleríi eða á nýju borgartorgi. Ég hlakka til að sjá hvað gerist þegar veruleikinn tekir verkið einu skrefi lengra.

Aðrir munu glíma við tæknileg atriði og útreikninga en ég þarf að hafa yfirsýnina og verð með í ferlinu alla leið.“ Hún bætir við að uppbygging hverfisins og þar með uppsetning verksins muni taka einhver ár en hún mun hafa hugann við það. „Sem er ánægjulegt því þá get ég komið enn oftar til Íslands! Það er ekki amalegt á svona fallegum vetrardögum.“

Teikning sem sýnir mögulega útfærslu með tveimur 11 metra háum …
Teikning sem sýnir mögulega útfærslu með tveimur 11 metra háum sívalningum með pálmatrjám.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson