Að tala við sjálfan sig

Logi Bergmann.
Logi Bergmann.
„Þá er alltaf hættan á að eftir sitji bara fólk sem er allt sömu skoðunar og skilji bara ekkert í því að það hafi bara alltaf rétt fyrir sér. Barasta allir í hópnum eru alltaf sammála því,“ skrifar Logi Bergmann í vikulegum pistli í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.
Pistilinn má lesa hér í heild sinni:
„Við erum örugglega fróðasta kynslóð sem hefur nokkurntímann gengið um jörðina. Við erum böðuð í upplýsingum frá morgni til kvölds. Alls staðar dynja á okkur fréttir, tilkynningar, reynslusögur og bara almennur fróðeikur. Við vitum meira um annað fólk og aðrar þjóðir en forverar okkar. Við getum flett öllu upp í símanum okkar. Það mætti ætla að allar okkar ákvarðanir væru vel ígrundaðar og byggðar á bestu fáanlegum upplýsingum á hverjum tíma.

Eða hvað?

Vandinn er kannski sá að það er líka hægt að velja sér upplýsingar. Við veljum hvað við viljum hlusta á og helst það sem hentar heimsmynd okkar. Þannig að um leið og við höfum meiri aðgang að fréttum þá er líka hætta á við einangrumst meira í sápukúlunni okkar, því sem stundum hefur verið kallað bergmálshellir.

Síðasta dæmið er umræðuhópurinn Orkan okkar. Ég tek það fram að ég ætla ekki að taka neina afstöðu til málsins. Mér finnst bara frábært að fólk skuli nota samfélagsmiðla til að viða að sér upplýsingum, ræða málin og þannig komast að niðurstöðu. Skyldi maður ætla.

Nú berast samt fréttir af því að nokkrum, sem hafi haft upp ólík sjónarmið, hafi hreinlega verið hent útúr hópnum. Fyrst var innleggjum þeirra eytt og svo voru þeir útilokaðir. Það er aðeins of ótrúleg tilviljun að þetta skuli allt vera fólk sem hefur eitthvað að athuga við sjónarmið þeirra sem ráða hópnum. Enda kemur í ljós að það óvenjulega við þennan hóp er að þangað eru bara þeir velkomnir sem eru sammála þeim sem fyrir eru. Hér er bara pláss fyrir eina skoðun.

Þá er alltaf hættan á að eftir sitji bara fólk sem er allt sömu skoðunar og skilji bara ekkert í því að það hafi bara alltaf rétt fyrir sér. Barasta allir í hópnum eru alltaf sammála því.

Ég hef lært mest í mínu lífi á því að tala við fólk sem er ósammála mér. Þannig hef ég kynnst ólíkum sjónarmiðum og lært um ýmislegt sem ég hefði að öðrum kosti aldrei vitað af. Að rökræða um mál er frábær leið til að annaðhvort skipta um skoðun eða fá sannfæringu um að maður hafi rétt fyrir sér. En víðsýni skilar sér sjaldnast á því að tala bara við fólk sem er sammála þér og ef þú þarft aldrei að standa fyrir máli þínu.

Hitt vandamálið er að mörkin á milli staðreynda og skoðana virðast verða óljósari. Það er kannski skuggahliðin á þessari upplýsingabyltingu. Nú hafa allir rödd og það er svo miklu einfaldara að koma skoðun sinni á framfæri. Hér áður fyrr voru bara nokkrir fjölmiðlar sem fólk fékk á hverjum degi og margir þeirra voru lokaðir nema útvöldum. Nú eru engir hliðverðir. Núna er allt opið alls staðar.

Að sama skapi hefur krafan um að fólk standi fyrir máli sínu nánast horfið. Í þessum endalausa öldugangi skoðana er ábyrgð orða mun minni en hún áður var. Margoft, þegar fólki er bent á að það sem það segi standist ekki skoðun, þá breytir það engu. Þetta er mín skoðun – mín staðreynd. Ég ætla að halda áfram að halda henni fram af því að mér líkar hún.

Stundum getur þetta verið krúttlegt og jafnvel fyndið en í raun er þetta hættulegt. Þetta skapar jarðveg fyrir ótta, fordóma og ranghugmyndir. Umræða hefur alltaf verið nauðsynleg til að komast að niðurstöðu. En umræða skilar engu ef þú talar bara við sjálfan þig.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson