Gengu fram á áratuga gamalt fótspor

Fórspor í Surtsey sem er að öllum líkindum eftir kvenmann, …
Fórspor í Surtsey sem er að öllum líkindum eftir kvenmann, mögulega Elínu Pálmadóttur, frá 1965. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er mjög heilluð af því hvernig nýr staður verður til og eitt nærtækasta dæmið sem við á Íslandi þekkjum er Surtsey,“ segir myndlistarkonan Þorgerður Ólafsdóttir en sýning hennar Séstey / Hverfey var opnuð í Surtseyjarstofu í Eldheimum, Vestmannaeyjum, 18. júní síðastliðinn.

Á sýningunni er meðal annars að finna ljósmynd af hirslu Náttúrufræðistofnunar sem geymir samansafn af gjósku sem m.a. sjómenn sópuðu upp af þilförum skipa sinna, fyrstu efnisögnunum sem byggðu upp Surtsey. Þorgerður segir þessa ljósmynd ef til vill einhvers konar leiðarvísi að sýningunni þar sem hún veltir fyrir sér hvernig staður verður til og hvernig maðurinn fer smám saman að eiga við þann stað.

Magnús Freyr Sigurkarlsson sérfræðingur um friðlandið Surtsey, Þorgerður Ólafsdóttir, Íris …
Magnús Freyr Sigurkarlsson sérfræðingur um friðlandið Surtsey, Þorgerður Ólafsdóttir, Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja og Kristján Egilsson, einn af fyrstu íslensku Surtseyjarförunum. Ljósmynd/Aðsend

Lýstu Surtsey franska nýlendu

Á timarit.is rakst hún á grein í Morgunblaðinu um Frakkana þrjá sem stigu fyrstir manna á land í Surtsey, á undan Íslendingum, og settu niður franska fánann og lýstu nýja landið franska nýlendu. „Það er svo stórkostlega súrrealískur viðburður en það eru kannski ekki margir af minni kynslóð sem vita af honum.“

Ljósmyndari Morgunblaðsins tók ljósmyndir af landgöngunni sjálfri auk þess sem tveir menn tóku eldgosið upp á litfilmu. Þorgerður fór að leita að filmunni og fann á endanum áður óþekkt myndbrot í fórum Kvikmyndasafns Íslands þar sem sjá má landgöngu Frakkanna.

Þorgerður segist hafa unnið stillur úr filmunni og gert ljósmyndaverk og fengið leyfi til þess að sýna filmuna. „Það er kannski upphafið að verkefninu. Þarna var komin skrásett heimild um það hvernig maðurinn fer að gera tilkall til nýs staðar. Svo fór þetta að hlaða ansi mikið upp á sig,“ segir Þorgerður.

Hún hafði rætt við Umhverfisstofnun um það hvort áhugi væri fyrir því að setja upp myndlistarsýningu í Surtseyjarstofu sem væri í samtali við fastasýninguna, en þar er áhersla lögð á jarðfræðisögu Surtseyjar og þróun lífkerfisins þar.

„Þeim fannst mjög áhugavert að vera í samstarfi við myndlistarmann sem gæti nálgast hlutina á annan hátt og komið með ný sjónarhorn. Listrannsóknir eru að verða viðteknari nálgun innan vísindasviðsins og kannski umhverfisvísindanna einna helst. Það sem myndlistin getur leyft sér er að búa til nýtt samhengi og hún getur tengt saman hluti sem myndu annars ekki endilega eiga samleið.“

Leiðangur til Surtseyjar

„Það var svolítið sérstakt að fjalla um einhvern stað án þess að hafa heimsótt hann. En það var svo fjarlægur draumur að komast til Surtseyjar. Mér hefði aldrei dottið í hug að sækja um fararleyfi af því að ég er ekki vísindamaður,“ segir Þorgerður. Eftir hvatningu frá kunningjakonu sinni, sem er fornleifafræðingur, ákvað Þorgerður þó að sækja um að fara til Surtseyjar.

„Mín umsókn sneri svolítið að því að skrásetja upplifun af umhverfi Surtseyjar með hliðsjón af mannvistarleifum og áhrifum mannsins á eyjuna. Mér til mikillar gleði þá gekk umsóknin í gegn. Það var laust pláss með jarðfræðileiðangrinum sumarið 2021. Í þessum leiðangri átti að skoða fótspor sem eru talin vera eftir hóp vísindamanna frá árinu 1965. Mér fannst það ótrúlega spennandi,“ segir hún.

„Fyrsta kvöldið í eyjunni gengum við fram á fótspor sem hafði ekki fundist áður og var svona ofboðslega greinilegt í hlíðinni. Það vakti svo mikla athygli af því að þetta var fótspor eftir mjög nettan fót. Það er því líklega eftir konu og það voru ekki margar konur sem komu í eyjuna 1965,“ segir Þorgerður og því hafi mátt leggja fram þá tilgátu að fótsporið sé eftir Elínu Pálmadóttur, sem var lengi blaðamaður á Morgunblaðinu og lést nýlega.

Fjallað var um fund sporsins í Morgunblaðinu í fyrra, en tilurð þess þótti þá ekki vís.

Þorgerður vann með einum jarðfræðingnum í hópnum, Birgi Vilhelm Óskarssyni, að þrívíddarmódeli af fótsporinu sem hún sýnir í Surtseyjarstofu.

Hópurinn hafðist við í Surtsey í þrjá daga. „Að koma til Surtseyjar var svolítið eins og að koma til tunglsins. Eyjan var svo miklu stærri en ég hafði ímyndað mér og svo margbreytileg með stórbrotinni náttúru,“ segir Þorgerður.

Úr myndaseríu Þorgerðar Sögumönnum. Þar tekur hún fyrir sjórekið plast …
Úr myndaseríu Þorgerðar Sögumönnum. Þar tekur hún fyrir sjórekið plast úr Surtsey og framandsteina. Ljósmynd/Aðsend

Vildi eignast ruslið

„Mér hafði ekki dottið í hug að sækja um að fá að taka jarðefnasýni úr eyjunni. Maður þarf sérstakt leyfi fyrir því.“ En þegar verið var að ganga frá að dvölinni lokinni þá komst hún í feitt. Þegar búið var að sópa gólfið í Pálsbæ II, bækistöð vísindamannanna, kom upp sú spurning hvort henda ætti því sem sópað hafði verið saman. „Þetta var sandur, hraunmolar ásamt matarleifum, hári og alls konar. Þá stökk ég til og vildi endilega fá að halda þessu. Svo ég endaði á að eignast jarðefnasýni úr Surtsey sem er í bland við afganga frá okkur.“

Séstey/Hverfey er hluti af stærra verkefni sem Þorgerður hefur unnið að undanfarið ár í tengslum við Surtsey, Island Fiction, og lýkur með útgáfu nýs bókverks árið 2023, á 60 ára gosafmæli Surtseyjar.

Lesa má lengra viðtal við Þorgerði í Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson