EINKENNI

  • Lykilorð: Athafnaorka
  • Pláneta: Mars
  • Höfuðskeppna: Eldur
  • Litur: Rauður
  • Málmur: Járn
  • Steinar: Rúbín, blóðsteinn, jaspis
  • Líkamshluti: Höfuð
  • Frægir hrútar Vigdís Finnbogadóttir, Marlon Brando, Billi Holiday, Miró, Diana Ross, Leonardo da Vinci, Descartes, Þórhildur Þorleifsdóttir, Spencer Tracy og Betty Davis.

HRÚTUR

Hrúturinn er oft grannur og spengilegur, með augabrúnir og nef sem minna á táknið fyrir stjörnumerkið. Hann er lítið hrifinn af skrautgripum og fötum sem hefta hreyfingafrelsi hans, enda er hann hvatvís og lifandi og fljótur að bregðast við. Hrúturinn er eldmerki, svo fólk sem fætt er í Hrútnum hefur oftast ríka þörf fyrir að tjá sig í verki. Það er dugandi, blátt áfram og á bágt með að þola tafir og aðgerðaleysi. Hrútar eru óþolinmóðir og þrjóskir, en þeir eru líka gæddir persónu-töfrum og stefna einbeittir að settu marki. Þeir eru fæddir leiðtogar og fljótir að hugsa, en eðlislæg hreinskilni veldur því að þeir eiga bágt með að segja ósatt og Hrútar eru oft bæði saklausir og einlægir í hjarta. Hrútar hafa gaman af íþróttum, helst ef í þeim felst hraði, hreyfing og líkamleg snerting, enda finnst þeim fátt verra en sitja aðgerðalausir. Hrúturinn er í eðli sínu brautryðjandi, svo hann hneigist til að velja sér starf sem krefst frumlegrar hugsunar, og margir Hrútar gerast vísindamenn, uppfinningamenn, skurðlæknar, geðlæknar eða sálfræðingar, en Hrúturinn gæti allt eins tekið upp á því að reka eigin fyrirtæki, iðulega innan nýrrar starfsgreinar. Hrútar heillast líka af stjórnmálum og eru oft virkir félagar eða í stjórn síns stéttarfélags. Ef Hrúturinn ætlar að ná langt, þarf hann að læra að stjórna skapi sínu og ætti að huga meira að þörfum og skoðunum annarra, til að komast hjá árekstrum.