Milosevic sakar Frakka og múslima um blekkingar í Srebrenica

Hajra Catic, sem lifði af fjöldamorðin í Srebrenica í júlí …
Hajra Catic, sem lifði af fjöldamorðin í Srebrenica í júlí árið 1995, grætur þegar hún fylgist með réttarhöldunum yfir Milosevic í sjónvarpi. AP

Slobodan Milosevic, fyrrverandi leiðtogi Júgóslavíu, sagði við stríðsglæpadómstól Sameinuðu þjóðanna í Haag, að andstæðingar Serba hefðu skipulagt fjöldamorðin í Srebrenica í Bosníu árið 1995, en þá voru átta þúsund múslimar myrtir í verstu fjöldamorðum í Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Forsetinn fyrrverandi sagði að útsendarar frönsku leyniþjónustunnar og fulltrúar múslima í Bosníu hefðu lagt á ráðin um að skella skuldinni á hersveitir Bosníu-Serba, sem eru sakaðar um verknaðinn.

Milosevic sagði í varnarræðu sinni við dómstólinn að Frakkar og múslimar hefðu komist á snoðir um áform Bosníu-Serba um að hertaka bæinn Srebrenica í júlí 1995. Nokkrum dögum síðar hafi hollenskir friðargæsluliðar SÞ yfirgefið bæinn, sem var griðastaður flóttafólks, og hersveitir Bosníu-Serba hertekið hann. Milosevic segir hins vegar líklegt að málaliðar hafi myrt múslimana í stað serbneskra hermanna, að sögn fréttavefjar BBC. Forsetinn fyrrverandi taldi að múslimar og Frakkar hefðu ætlað að nota fjöldamorðin sem átyllu fyrir hernaðaríhlutun í Bosníu. „Ég vil að sannleikurinn komi fram í þessum vitskertu morðum," sagði Milosevic meðal annars í ræðu sinni.

Annar hluti stríðsglæparéttarhalda yfir Milosevic hófst í gær með umfjöllun um stríðsglæpi sem hann er sakaður um í borgarastyrjöldum í Bosníu og Króatíu 1992-95. Saksóknarar við dómstólinn hafa gefið út 61 ákæru á hendur Milosevic fyrir hlut hans í borgarastyrjöldunum, meðal annars fyrir að tengjast fjöldamorðunum í bænum Srebrenica árið 1995.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert