Bandaríkjastjórn fordæmir valdaránið í Taílandi

Búddistamunkar ganga fram hjá skriðdreka og hermanni við búddahof í …
Búddistamunkar ganga fram hjá skriðdreka og hermanni við búddahof í Bangkok. AP

Bandaríkjastjórn fordæmir valdarán hersins í Taílandi á þriðjudag og kallar eftir því að lýðræði verði þar komið á að nýju. Hvíta húsið sendi frá sér yfirlýsingu þar sem lýst er yfir vonbrigðum með ástandið og þeir sem eru við stjórnvölinn í Taílandi nú beðnir um að halda loforð sitt og boða til kosninga. Í yfirlýsingunni er hins vegar ekki farið þess á leit að forsætisráðherra landsins, Thaksin Shinawatra, fái völd sín aftur.

Sonthi Boonyaratglin herforingi, sem fór fyrir valdaráninu, hefur lýst því yfir að hann muni skipa nýjan forsætisráðherra innan tveggja vikna. Hann hefur einnig heitið því að bráðabirgðaríkisstjórnin sem nú situr í Taílandi muni endurskrifa stjórnarskrá landsins og lýðræði verði komið á aftur innan árs.

Hin opinbera skýring á valdaráninu er að stjórnmálakreppa hafi verið í landinu og að Shinawatra hafi misbeitt valdi sínu. Ríkissjónvarpið í Taílandi segir konung landsins, Bhumibol Adulyadej, styðja ránið. Talsmaður Hvíta hússins segir viðræður um fríverslunarsamning Bandaríkjanna og Taílands nú velta á því hvort lýðræði verði komið á með hraði. Talsmaður utanríkisráðuneytisins segir ekkert réttlæta valdaránið.

Mótmæli hafa verið mánuðum saman í Taílandi vegna þingkosninga sem fóru fram í landinu en úrslit þeirra voru ógilt vegna gruns um svindl. Hafa mótmælendur krafist afsagnar Shinawatra. BBC segir frá þessu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert