Annar ráðherra segir af sér í Svíþjóð

Cecilia Stegö Chilo.
Cecilia Stegö Chilo. AP

Cecilia Stegö Chilo menningarmálaráðherra Svíþjóðar hefur sagt af sér og er hún annar ráðherrann í nýrri ríkisstjórn Svíþjóðar sem neyðist til þess að segja af sér. Einungis er rúm vika síðan ríkisstjórn Fredriks Reinfeldts, forsætisráðherra Svíþjóðar, tók til starfa. Ástæða afsagnar Chiló er að hún hefur sætt harðri gagnrýni fyrir að hafa ekki greitt afnotagjald af sænska ríkisútvarpinu í 16 ár, en Chilò er m.a. æðsti yfirmaður ríkisútvarpsins sem menningarmálaráðherra. Hún hefur jafnframt verið gagnrýnd fyrir að gefa laun barnfóstra ekki upp til skatts.

Maria Borelius, viðskiptaráðherra Svíþjóðar, sagði af sér á laugardag eftir að hafa aðeins gegnt embættinu í eina viku, en málið tengist launagreiðslum sem hún greiddi dagmæðrum á 10. áratug síðustu aldar sem ekki voru gefnar upp til skatts.

Fleiri sænskir ráðherrar hafa lent í vandræðum vegna fjármála sinna Tobias Billström, reyndist ekki hafa greitt afnotagjöld í 10 ár. Borelius hefur heldur ekki greitt afnotagjöld frá því hún flutti lögheimili sitt aftur til Svíþjóðar í haust eftir sex ára dvöl á Englandi.

Þá hafa tveir ráðherrar viðurkennt að hafa reykt hass fyrir mörgum árum og Andreas Carlgren, umhverfisráðherra, er sakaður um að hafa gefið rangar upplýsingar um tekjur sínar eftir að hann hætti á þingi árið 1998 og þannig komið sér undan að greiða skatt af um 130 þúsund sænskum krónum. Carlgren segir að um misskilning að ræða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert