Fórnarlömb sprengjuárásanna í Bagdad borin til grafar; tala látinna komin yfir 200

Maður sést hér fella tár við útför fórnarlamba sprengjuárásanna í …
Maður sést hér fella tár við útför fórnarlamba sprengjuárásanna í dag. Reuters

Íbúar Sadr-borgar báru til grafar í dag þá einstaklinga sem létust í sprengjuárásunum í gær, sem eru þær mestu sem hafa verið gerðar í Bagdad frá því Bandaríkin gerðu innrás í Írak árið 2003. Greina mátti mikla reiði og sorg meðal fólksins sem gekk á eftir kistum hinna látnu í dag. Samkvæmt nýjum tölum frá íröskum lögreglunni er tala látinna komin upp í 202.

Útgöngubann hefur verið lýst yfir í borginni og sáust fáir aðrir á ferli en þeir sem syrgðu hina látnu og öryggissveitarmenn sem stóðu vaktina.

Sjítar, sem búa í hinu víðfeðma og pólitískt róttæka fátækrahverfi, fjölmenntu í Bagdad og var kistum komið fyrir á bifreiðum sem óku löturhægt eftir götum borgarinnar í átt að hinni heilögu Najaf-borg og gekk fólk á eftir þeim.

Írösk stjórnvöld hafa kallað eftir því að menn sýni stillingu eftir sprengjuárásirnar sem áttu sér stað í gær, en aldrei hafa meiri líkur á því að trúarbragðastyrjöld muni brjótast út á mill sjíta, sem eru í meirihluta, og súnní Araba.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert