Saddam neitaði að láta draga hettu yfir höfuð sé fyrir aftökuna

Mynd tekin af íraska ríkissjónvarpinu sýnir snöru setta um háls …
Mynd tekin af íraska ríkissjónvarpinu sýnir snöru setta um háls Saddams. Reuters

Saddam Hussein, fyrrum forseti Íraks, barðist stuttlega um þegar bandarískir herverðir afhentu hann íröskum böðlum. En þegar aftökustundin nálgaðist róaðist Saddam. Hann var klæddur í svartan alklæðnað með hatt á höfði en hatturinn var tekinn af honum áður en snaran var sett um háls hans. Saddam hélt á Kóraninum þegar hann var leiddur að gálganum og neitaði að láta draga svarta hettu yfir höfuð sér. AP fréttastofan hefur þetta eftir heimildarmönnum, sem voru viðstaddir aftöku Saddams í nótt.

Skömmu fyrir aftökuna var Saddam spurður hvort hann vildi segja eitthvað. „Nei, það vil ég ekki," svaraði hann. Saddam hafði síðan bæn eftir múslimaklerki, sem var viðstaddur. Áður en snaran var sett um háls hans hrópaði Saddam: „Guð er mikill. Þjóðin verður sigursæl og Palestína er arabísk."

Íraska ríkissjónvarpið sýndi verði með svartar skíðagrímur leggja snöruna um háls Saddams. Saddam virðist rólegur þar sem hann stendur í gálganum. Myndbandið er klippt rétt áður en aftakan fer fram.

Maður, sem vitnaði gegn Saddam í réttarhöldunum þar sem hann var dæmdur til dauða, sagði að hann hefði fengið að sjá lík Saddams „því allir vildu sjá með eigin augum að hann hefði í raun verið tekinn af lífi."

„Nú er hann kominn á öskuhauga sögunnar," hefur AP fréttastofan eftir Jawad Abdul-Aziz, sem missti föður sinn, þrjá bræður og 222 skyldmenni þegar dauðasveitir Saddams myrtu fjölda íbúa í bænum Dujail árið 1982 til að hefna fyrir morðtilræði gegn forsetanum þáverandi.

Dansað var á götum úti í Sadr-borg, hverfi sjíta í Bagdad, í nótt eftir að fréttir bárust af aftökunni. Sumir skutu af byssum upp í loftið. Ekki var sett á útgöngubann.

En íbúar í borginni Tikrit, þar sem Saddam ólst upp, hörmuðu dauða hans en flestir í borginni eru sunní-múslimar. „Forsetinn, leiðtoginn Saddam Hussein, er píslarvottur og guð mun leiða hann til sætis meðal annarra píslarvotta. Ekki vera sorgmædd því hann fékk dauðdaga heilags stríðsmanns," sagði Yahya al-Attawi, klerkur í Saddam-moskunni í Tikrit.

Vopnaðir menn fóru út á götur Tikrit í morgun. Þeir héldu á myndum af Saddam og skutu upp í loftið og hvöttu til hefnda.

Þeir Barzan Ibrahim, hálfbróðir Saddams, og Awad Hamed al-Bandar, fyrrum forseti Byltingardómstólsins, voru ekki hengdir með Saddam en þeir voru einnig dæmdir til dauða fyrir morðin í Dujail.

Að sögn íraskra stjórnvalda hefur ekki verið ákveðið hvað gert verður við lík Saddams.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert