Danskir prestar sjá merki þess að heimsendir sé í nánd

Bandarískir veðurfæðingar fylgjast með veðurkortum.
Bandarískir veðurfæðingar fylgjast með veðurkortum. AP

Danski biskupinn Steen Skovsgaard segir þær loftlagsbreytingar sem nú eiga sér stað í heiminum vera merki þess að dómsdagur sé í nánd. „Sem kristnar manneskjur bíðum við endurkomu Herrans en eins og Jesús sagði sjálfur, þá þekkir enginn dagsetningu þess eða tímasetningu. Við höfum hins vegar séð mörg merki þess að hann sé að nálgast,” sagði hann. „Áður en dómsdagur rennur upp munu nokkrir alvarlegir atburðir verða sem gefa til kynna að endalokin nálgist.” Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

“Jesús segir frá þessu á mörgum stöðum í Nýja testamentinu. Hann segir m.a. að menn muni rísa gegn mönnum, land gegn landi, að það muni verða miklir jarðskjálftar og að fólkið á jörðinni muni fyllast ótta, forviða yfir krafti hafs og elds. Það er mjög eðlilegt að við upplifum loftslagsbreytingarnar sem merki þess að endalokin nálgist en við verðum einnig að muna að Jesús sagði að við þyrftum ekki að óttast, þar sem til er von sem nær út fyrir þennan heim,” segir biskupinn, sem sagður er tala fyrir munn vaxandi hóps presta innan dönsku þjóðkirkjunnar.

Stig Christensen, sóknarprestur í Sønderborg, tekur í sama streng og segir engan vafa leika á því að þær breytingar sem nú séu að verða í náttúrunni svari til þeirra lýsinga sem finna megi um aðdraganda heimsendis í Nýja testamentinu. Þá segir hann líkt og Skovsgaard fleiri spádóma vera að koma fram og nefnir það að gyðingar hafi snúið aftur til föðurlands síns.

„Í dag eru það helst blaðamenn og vísindamenn, sem tala um heimsendi, en prestar þurfa einnig að fara að tala meira um hann því fleiri og fleiri spyrja spurninga um hann, þegar þeir sjá það sem er að gerast í náttúrunni," segir Christensen.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert