Hillary Clinton ítrekar að hún taki ákvarðanir sjálf

Reuters

Hillary Rodham Clinton, fyrrum forsetafrú sem hyggur á forsetaframboð segir að mikill styrkur felist í því að hafa Bill Clinton eiginmann sinn sér við hlið, en ítrekar að hún sé ein á leið í forsetaframboð og ætli sér að taka ákvarðanirnar sjálf, verði hún forseti.

Síðan Clinton tilkynnti um að hún stefndi að því að verða forsetaframbjóðandi demókrataflokksins í Bandaríkjunum í kosningunum árið 2008, hefur verið þrýst á hana um að skýra hvert hlutverk eiginmanns hennar verði, ef hún verður kjörin forseti.

Í kosningabaráttu Bill Clintons fyrir fimmtán árum lét hann þau orð falla að þau hjónin væru pólitískir samstarfsmenn og að kjörorð hans gæti eins verið á þá leið að kjósendur fengju tvo á verði eins með því að kjósa hann. Í viðtali í þættinum „Today Show” á sjónvarpsstöðinni NBC í dag sagði frú Clinton að þetta slagorð ætti ekki við í hennar tilviki, en að hún myndi nýta sér ráð eiginmannsins og reynslu, ekki aðeins sem forseta, heldur einnig um þekkingu hans á heiminum í dag.

Hillary Clinton þykir líkleg til að verða valin forsetaefni demókrataflokksins, þótt margir séu kallaðir, m.a. þingmaðurinn Barrack Obama, John Edwards, fyrrverandi þingmaður og varaforsetaefni flokksins árið 2004 og Bill Richardson ríkisstjóri Nýju Mexíkó og fyrrum sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert