„Hvað þarf marga þingmenn til að skipta um ljósaperu?“

Þingmaður í Kaliforníu vill að ríkið taki frumkvæði með því að banna notkun hefðbundinna ljósapera til að draga úr orkunotkun og losun gróðurhúsalofttegunda.

Samkvæmt lagafrumvarpinu „Hvað þarf marga þingmenn til að skipta um ljósaperu?“ yrði notkun glóðarpera bönnuð frá og með 2012 og í staðinn skuli notaðar orkusparandi flúrperur.

„Glóðarperur voru fyrst búnar til fyrir nærri 125 árum, en síðan hafa engar stórar breytingar verið gerðar á þeim,“ sagði þingmaðurinn, Lloyd Levine. „Þær eru óhemju óhagkvæmar og aðeins um fimm prósent orkunnar sem þær taka nýtist til birtugjafar.“

Levine mun leggja frumvarpið fram nú í vikunni.

Litlar flúrperur nota einungis um fjórðung þeirrar orku sem hefðbundnar ljósaperur nota. Árið 2005 voru um 100 milljónir slíkra pera seldar í Bandaríkjunum, eða um fimm prósent af þeim tveim milljörðum pera sem seljast árlega í Bandaríkjunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert