Sýru varpað á japanskt hvalveiðiskip í Suðurhöfum

Japanskt hvalveiðiskip.
Japanskt hvalveiðiskip. Reuters

Japönsk stjórnvöld hafa fordæmt aðgerðir náttúruverndarsamtakanna Sea Shepherd, sem reyna að trufla hvalveiðar Japana í Suðurhöfum. Sea Shepherd segja, að félögum í samtökunum hafi tekist að úða sex lítrum af illa lyktandi sýru á þilfar eins hvalveiðiskipsins. Sýran hafi hins vegar ekki verið eitruð. Tveir Sea Shepherd-liðar lentu í sjónum en var bjargað eftir nokkra leit, sem áhafnir hvalveiðiskipanna tóku þátt í.

Atburðir þessir urðu í gærkvöldi að íslenskum tíma við Suðurskautslandið. Sea Shepherd er með tvö skip á miðunum til að reyna að trufla hvalveiðar Japana, sem ætla að veiða 850 hrefnur og 10 langreyðar í vísindaskyni. Skipin voru skráð í Belís, en þarlend stjórnvöld hafa ógilt skráninguna.

Sea Shepherd segir, að tekist hafi að trufla hvalskurð um borð í japanska skipinu. Í ljós kom síðan, að tveir úr áhöfn skips Sea Shepherd voru horfnir og tóku japönsku sjómennirnir þátt í leit að mönnunum. Mun það vera í fyrsta skipti, sem slík samvinna á sér stað á hvalamiðunum. Mennirnir fundust í sjónum heilir á húfi.

Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir talsmanni japanska utanríkisráðuneytisins, að þar ríki mikil reiði í garð náttúruverndarsinnanna fyrir að hafa staðið að slíkri árás á japönsk skip. Sagði hann, að öll aðildarríki Alþjóða hvalveiðiráðsins hefðu samþykkt að reyna að koma í veg fyrir atvik af þessu tagi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert