Liðsmenn Sea Shepherd harðlega gagnrýndir

Litaðan reyk leggur frá japanska hvalveiðiskipinu Kaiko Maru, á Rosshafi …
Litaðan reyk leggur frá japanska hvalveiðiskipinu Kaiko Maru, á Rosshafi við Suðurskautslandið. Sea Shepherd sendi myndina frá sér. Reuters

Paul Watson, leiðtogi náttúruverndarsamtakanna Sea Shepherd, sætir nú harðri gagnrýni fyrir þær aðferðir sem hann beitir gegn japanska hvalveiðiflotanum í Suðurhöfum en skip Shea Shepherd sigldi tvisvar á eitt japanska skipið þar í gær. Segja áströlsk og nýsjálensk stjórnvöld, að Sea Shepherd geti valdið málstaði hvalveiðiandstæðinga miklum skaða með aðgerðum sínum.

Umhverfisráðherrar landanna tveggja sögðu, að Sea Shepherd-liðar gætu sett mannslíf í hættu með því að reyna að koma í veg fyrir hvalveiðar með því að sigla á hvalveiðiskipin.

Skip Sea Shepherd, Robert Hunter, sigldi tvívegis á japanska skipið Kaiko Maru, sem sendi frá sér neyðarkall í kjölfarið vegna þess að skrúfa skipsins laskaðist. Rifa kom á Robert Hunter yfir sjólínu.

Chris Carter, umhverfisráðherra Nýja-Sjáland, gagnrýndi báða aðila fyrir heimskuleg slagsmál. Hann hringdi síðar í Paul Watson, stofnanda Sea Shepherd til að reyna að fá hann ofan af frekari aðgerðum.

„Mótmælaaðgerðir Sea Shepherd hafa gengið of langt," sagði Carter og bætti við að mannslíf kynnu að vera í hættu.

Malcolm Turnbull, umhverfisráðherra Ástralíu, tók í sama streng og bætti við að þessir atburðir kynnu að skaða málstað andstæðinga hvalveiða.

Glenn Inwood, talsmaður sjávarspendýrarannsóknastofnunar Japans, sagði að Sea Shepherd-liðar hefðu hagað sér eins og sjóræningjar. Skip samtakanna hefðu siglt upp að hvorri hlið japanska skipsins og þannig komið í veg fyrir að að það gæti siglt áfram. Sömu aðferð hafi sjóræningjar beitt í áraraðir. Þá sagði hann að náttúruverndarmenn hefðu kastað netum í sjóinn í þeirri vona að þau flæktust í skrúfu japanska skipsins.

Robert Hunter, skip Sea Shepherd, og japanska hvalveiðiskipið Kaiko Maru …
Robert Hunter, skip Sea Shepherd, og japanska hvalveiðiskipið Kaiko Maru rekast saman. Sea Shepherd sendi myndina frá sér. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert