IAEA: Íranar gætu hafið fjöldaframleiðslu á auðguðu úrani á næstu sex mánuðum

Mohammed ElBaradei, yfirmaður IAEA.
Mohammed ElBaradei, yfirmaður IAEA. Reuters

Íranar gætu hafið fjöldaframleiðslu á auðguðu úrani innan hálfs árs, en þeir gætu enn verið 10 ár frá því að búa yfir þeirri tækni sem þarf til þess að búa til kjarnorkusprengju. Þetta sagði Mohamad ElBaradei, yfirmaður Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA).

Hann sagði í viðtali við dagblaðið Financial Times að Íranar hafi frá því í ágúst sl. notað skilvindur á tilraunastöð í bænum Nataz til þess að auðga úran.

IAEA telur að Íranar gætu komið upp 3.000 skilvindum sem nota ætti til fjöldaframleiðslu á næstu 12 mánuðum. Það væri nóg til þess að hefja framleiðslu á kjarnkleyfum efnum sem nota má til sprengjugerðar.

„Það gæti verið hálft ár, það gæti verið eitt ár,“ sagði ElBaradei í viðtali við dagblaðið sem verður birt á morgun.

ElBaradei bætti því við að yfirvöld í Íran hafi lært svo mikið af tilraunastöðinni að það væri nú ómögulegt að snúa tímanum við.

Þrátt fyrir að það hafi verið viðeigandi að óttast það fyrir hálfu ári síðan að írönsk stjórnvöld hafi mögulega lært nægilega mikið varðandi auðgun úrans þá „er það ekki viðeigandi í dag sökum þess að Íranar hafa keyrt þessar skilvindur í að minnsta kosti sex mánuði,“ sagði ElBaradei.

Úran er auðgað svo framleiða megi eldsneyti fyrir kjarnaofna en auðgað úran myndar jafnframt sprengikjarnann í kjarnorkusprengjum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert