Ahmadinejad segir kjarnorku mikilla fórna virði

Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti.
Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti. AP

Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti lýsti því yfir í morgun að kjarnorkuþróun landsins væri þjóðinni nauðsynleg og því þess virði að fórna ýmsu fyrir hana. “Þróun kjarnorkutækni er mjög mikilvæg fyrir framþróun landsins,” sagði Ahmadinejad í opinberu ávarpi sem hann flutti í bænum Siahkal í Gilan héraði í norðurhluta. “Það er þess virði að leggja áherslu á þetta mál jafnvel þótt það tefji aðra þróun um tíu ár.”

“Komumst við yfir slíka orku mun það færa okkur fram á við um 50 ár. Við verðum að gera okkur grein fyrir því. Það er þess vegna sem óvinir okkar eru svo hræddir við að við komumst yfir þessa orku,” sagði Ahmadinejad. “Með hjálp æsku okkar munum við halda áfram að vinna að því að eignast slíka orku þannig að við getum öðlast það sem er réttmæt krafa okkar á sem stystum tíma."

Mohamed ElBaradei, yfirmaður Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, mun kynna nýja skýrslu stofnunarinnar um ástand mála í Íran fyrir öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í dag en fastlega er gert ráð fyrir að hann segi Írana hafa hunsað þann sex mánaða frest sem þeim hafi verið veittur til að hætta auðgun úrans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert