AP hætti fréttaflutningi af Paris Hilton

Paris Hilton, nú er hún orðin þekkt fyrir það að …
Paris Hilton, nú er hún orðin þekkt fyrir það að vera þekkt fyrir að vera þekkt. Reuters

Fréttastofan AP segir frá því í dag að tilraun um áhrif frétta hafi lokið þann 27. febrúar sl. þegar Paris Hilton var handtekin fyrir að aka með útrunnið ökuskírteini. Fréttastofan hafði nefnilega vísvitandi ekki flutt fréttir af Hilton síðan þann 19. febrúar í þeim tilgangi að sjá hver viðbrögðin yrðu.

Tilgangurinn var ekki sá, að sögn fréttastofunnar, að reyna að stuðla að því að fólk fylgdist betur með heimsmálunum, heldur einfaldlega að athuga hver viðbrögðin við fréttastoppinu yrðu. Hilton hefur vakið mikla athygli undanfarin ár, og kannski helst fyrir það eitt að vekja athygli hvar sem hún er án þess að hafa gert nokkuð til að verðskulda hana.

Þess vegna vildu ritstjórar AP sjá hvað gerðist ef engar fregnir af henni bærust í eina viku. Viðbrögð viðskiptavina AP, sem skipta þúsundum, létu ekki á sér standa, en þeir kvörtuðu ekki undan skorti á fréttum af Hilton, þeir sýndu sterk viðbrögð hins vegar við hugmyndinni. Sumir voru lítt hrifnir og sögðu að þarna væri verið að stjórna fréttaflutningnum, enn aðrir hafa hins vegar lofað framtakið og óskaði einn blaðamaður AP eftir því að álíka bann yrði tekið upp við fréttaflutningi af málefnum N-Kóreu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert