Kona dæmd fyrir að láta umskera dóttur sína

Áfrýjunardómstóll í Gautaborg (Hovrätten) staðfesti þriggja ára fangelsisdóm sem kona nokkur hlaut fyrir að láta umskera dóttur sína á ferðalagi til heimalands þeirra mæðgna, Sómalíu.

Í Dagens Nyheter kemur fram að móðir stúlkunnar hafi haldið því fram að hún hafi ekki haft neitt með umskurðurinn að gera og að hann hafi farið fram er stúlkan fæddist á sjúkrahúsi í Sómalíu.

Sænskir dómstólar telja að læknisskoðanir sem fóru fram í Svíþjóð sanni hið gagnstæð.

Stúlkan hefur sagt að tvær yngri systur hennar hafi einnig verið umskornar við sömu athöfn og upplýsingar sem komu fram við rannsókn málsins styðja þann framburð. Systurnar hafa hafnað því að veita aðstoð við rannsóknina.

Sænsk lög sem banna umskurð kvenna voru hert til muna 1999 og þá var hægt að kæra fólk fyrir að láta umskera stúlkubörn erlendis.

Áður hafa fallið tveir dómar í málum þar sem kært var fyrir sama brot og hlutu sakborningar tveggja ára fangelsisdóma. En talið er líklegt að þau mál endi fyrir hæstarétti þar sem þetta eru fyrstu dómarnir sem falla í málum sem þessum í Svíþjóð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert