Játar árásir á bandarískt herskip og sendiráð

Tólf metra breitt gat kom á bóg USS Cole við …
Tólf metra breitt gat kom á bóg USS Cole við sprenginguna. Reuters

Jemeninn Waleed Mohammed bin Attash, játaði við yfirheyrslur í fangabúðum Bandaríkjamanna við Guantánamo-flóa á Kúbu að hafa skipulagt árás á bandaríska herskipið USS Cole í Jemen í október 2000 en 17 hermenn biðu bana í árásinni. Þetta kemur fram í upplýsingum sem bandaríska varnarmálaráðuneytið sendi frá sér í dag.

Á bin Attash einnig að hafa játað að hafa skipulagt árás á sendiráð Bandaríkjanna í Kenýa og Tansaníu árið 1998 en alls létust 213 í árásunum.

Við yfirheyrslurnar sagðist bin Attash hafa keypt sprengiefnið sem notað var við árásirnar og að hafa skipulagt árásina á herskipið auk þess að hafa keypt bátinn sem var notaður og þjálfað þá sem gerðu árásina.

Fyrir fimm dögum gerði bandaríska varnarmálaráðuneytið opinberar yfirheyrslur yfir þremur hryðjuverkamönnum sem eru í haldi Bandaríkjamanna í Guantánamo. Þar á meðal yfir Khalid Sheikh Mohammed, sem játaði á sig margvísleg hryðjuverk svo sem að hafa skipulagt árásirnar á Bandaríkin þann 11. september 2001.

Bin Attash, sem er jemenskur ríkisborgari en ólst upp í Sádí-Arabíu, sagði við yfirheyrslur að hann hafi verið tengiliður milli Osama bin Laden og aðstoðarmanns hans, Sheikh Abd al-Rahim al-Nashiri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert