Heimastjórn tekur við völdum á Norður-Írlandi 8. maí

Ian Paisley, leiðtogar sambandssinna á Norður-Írlandi með Peter Hain, N-Írlandsmálaráðherra …
Ian Paisley, leiðtogar sambandssinna á Norður-Írlandi með Peter Hain, N-Írlandsmálaráðherra bresku stjórnarinnar. Reuters

Ian Paisley og Gerry Adams, leiðtogar andstæðra fylkinga á Norður-Írlandi, hafa samkvæmt heimildum AFP fréttastofunnar náð samkomulagi um það að mynda heimastjórn sem tekur við völdum á Norður-Írlandi þann 8. maí. Adams mun samkvæmt heimildum AFP lesa upp yfirlýsingu þessa efnis að loknum fundi þeirra sem nú stendur yfir en fundurinn er fyrsti milliliðalausi fundur þeirra. Í yfirlýsingunni mun koma fara að Paisley hafi fallist á stjórnarmyndunina án nokkurra fyrirvara.

Efnislegt samkomulag náðist um stjórnarmyndunina á laugardag en talið er að það verði undirritað í dag. Paisley, sem er formaður DUP flokks sambandssinna, féllst þá á að mynda stjórn með Adams, leiðtoga Sinn Fein, flokks lýðveldissinna sem vilja algeran aðskilnað frá Bretlandi. Hann vildi hins vegar fresta staðfestingu samkomulagsins um sex vikur til að vinna að frekari undirbúningi.

Heimastjórnarþing Norður-Írlands, sem kveðið er á um í páskasamkomulaginu frá árinu 1998, hefur ekki starfað frá því í október árið 2002 og hafa yfirvöld á Bretlandi og Írlandi veitt forsvarsmönnum ólíkra fylkinga á Norður-Írlandi frest til dagsins í dag til að ná samkomulagi um myndun nýrrar heimstjórnar til að nýkjörið heimastjórnarþing geti tekið til starfa. Að öðrum kosti færist stjórn þeirra mála sem hafa fallið undir valdsvið heimastjórnarinnar og heimastjórnarþingsins til yfirvalda í Bretlandi og á Írlandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert