Forstjóri Alþjóðabankans viðurkennir mistök

Paul Wolfowitz.
Paul Wolfowitz. AP

Paul Wolfowitz, forstjóri Alþjóðabankans, viðurkenndi í dag, að hann hefði gert mistök með því að aðstoða nána vinkonu sína að fá nýtt og betur launað starf. Málið hefur vakið talsverðan úlfaþyt og efasemdir um að Wolfowitz geti gegnt starfinu áfram.

Málið snýst um starfsmann Alþjóðabankans, Shaha Riza, sem hefur farið á stefnumót með Wolfowitz. Í september 2005, skömmu eftir að Wolfowitz tók við embætti forstjóra bankans, fékk Riza sérstakt verkefni hjá bandaríska utanríkisráðuneytinu en var samt áfram á launaskrá Alþjóðabankans.

Wolfowitz segir nú, að hann hefði ekki átt að skipta sér af samningum um verkefni Riza. Hann sagðist hafa gert stjórn bankans grein fyrir málinu og það væri þar til skoðunar.

Wolfowitz var aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna áður en hann var ráðinn til Alþjóðabankans. Hann vildi ekki svara beint spurningum blaðamanna um hvort hann myndi segja af sér embætti.

Bandaríska ríkisendurskoðunin áætlaði að laun Riza hefðu numið 193.590 dölum, jafnvirði um 12,5 milljóna króna á þessum tíma. Alþjóðabankinn greiddi laun hennar og hún er enn á launaskrá þar þótt hún starfaði hjá utanríkisráðuneytinu og hún fékk launahækkanir langt umfram jafnháttsetta starsfmenn bankans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert