115.000 Danir hafa breytt nafni sínu

Ekkert er því til fyrirstöðu að Kim Larsen breyti eftirnafni …
Ekkert er því til fyrirstöðu að Kim Larsen breyti eftirnafni sínu ef hann leiður á að heita hefðbundnu dönsku nafni

Rúmlega 115.000 Danir hafa breytt nafni sínu á því ári sem liðið er frá því að ný nafnalög tóku gildi í Danmörku. Margir virðast því hafa verið ósáttir við nafn sitt en ýmsar ástæður eru fyrir því að fólk skiptir um nafn. Danir af erlendum uppruna vilja margir fá dönsk eftirnöfn, en Danir sjálfir eru leiðir á að heita Olsen. Þetta kemur fram á fréttavef Berlingske Tidende.

Hefðbundin dönsk eftirnöfn á borð við Hansen, Olsen og Jensen voru áður lögvarin, og máttu aðeins þeir taka þau upp sem áttu nákomna ættingja sem báru nöfnin. Eftir að nýju lögin tóku gildi finnast engar reglur um það hver má nota hvaða nafn.

Þá má nú taka sér millinafn sem eftirnafn, þann valkost hafa um 30.000 Danir nýtt sér, þ.á.m. Peter Skovgaard, sem áður hét Peter Skovgaard Hansen.

Þó ríkir ekki algjört stjórnleysi í nafnamálum Dana, þeim er t.a.m. ekki heimilt að taka sér söguleg nöfn á borð við Tordenskiold eða Gormur Gamli, en auk þess er ekki leyfilegt að taka upp firmaheiti, nöfn vörumerkja eða listamannanöfn.

Danir mega hins vegar nú taka upp kenninafn dregið af nafni föður eða móður, líkt og tíðkast á Íslandi. Það hafa aðeins örfáir sérvitringar gert, eða 69 talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert