Dæmdir í allt að 9½ árs fangelsi fyrir málverkarán

Málverkið Ópið sem rænt var úr Munch-safninu í Ósló.
Málverkið Ópið sem rænt var úr Munch-safninu í Ósló.

Þrír menn, sem fundnir voru sekir um að hafa rænt tveimur málverkum norska málarans Edvards Munchs árið 2004 voru í dag dæmdir í 5½-9½ árs fangelsi og til að greiða Óslóarborg jafnvirði 16 milljóna íslenskra króna í bætur vegna skemmda, sem urðu á málverkunum tveimur, Madonnu og Ópinu.

Stian Skjold, sem saksóknarar telja að hafi verið einn af ræningjunumm var dæmdur í 5½ árs fangelsi. Petter Tharaldsen, sem er talinn hafa ekið flóttabílnum, var dæmdur í 9½ árs fangelsi og Bjørn Hoen, sem talinn er hafa skipulagt ránið, var dæmdur í 9 ára fangelsi, að sögn Aftenposten.

Málverkin fundust á ný á síðasta ári og í ljós kom að talsverðar skemmdir höfðu orðið á þeim. Þannig voru tvö göt á verkinu Madonnu og rakaskemmdir höfðu orðið á Ópinu.

Stian Skjold var á síðasta ári sýknaður í héraðsdómi en Tharaldsen var dæmdur í 8 ára fangelsi. Málinu var áfrýjað til næsta dómsstigs. Lögregla telur að einn þeirra sem framdi ránið hafi látist í nóvember á síðasta ári af völdum of stórs heróínskammts.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert