Veiðimenn felldu fágætan hlébarða

Amur-hlébarði.
Amur-hlébarði. Reuters

Veiðimenn í Rússlandi hafa fellt eitt síðasta amur-hlébarðakvendýrið í heiminum, að því er náttúruverndarsamtökin WWF greindu frá í dag. Aðeins sjö kvendýr af þessari tegund voru eftir. Eykur þetta enn á hættuna á að tegundin deyi út. Alls munu vera eftir 25-37 amur-hlébarðar sem lifa villtir í heiminum.

Í frétt frá WWF segir að fleiri karldýr tegundarinnar lifi villt en kvendýr vegna þess að þegar kattardýr séu undir álagi eignist þau fremur karlkyns afkvæmi.

Dýrið var skotið í bakið og síðan barið í höfuðið uns það dó, segir WWF. Engin dæmi eru um, svo vitað sé, að amur-hlébarðar hafi ráðist á menn. Dýraeftirlitssamtök á svæðinu fengu ábendingu um að hlébarði hefði verið felldur, og fannst það eftir nokkra leit.

Pavel Fomenko, fulltrúi WWF í Austur-Rússlandi, sagði: „Einungis hugleysi eða heimska getur fengið menn til að myrða hlébarða. Sennilega var um hvort tveggja að ræða í þessu tilviki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert