Töframenn í mál við sjónvarpsstöðvar

Hópur japanskra töframanna hafa höfðað mál gegn tveimur sjónvarpsstöðvum í landinu fyrir að opinbera í fréttaþáttum leyndarmálin á bak við nokkur töfrabrögð, sem gerð eru með aðstoð smápeninga.

Málið, sem var dómtekið fyrir héraðsdómstólnum í Tókýó, er höfðað gegn Nippon sjónvarpstöðinni og TV Asahi Corp. Töframennirnir, sem eru 49 talsins, krefjast skaðabóta sem nema tæpum tveimur milljónum jena (rúm milljón kr.).

Töframaðurinn Shintaro Fujiyama segir að sjónvarpstöðvarnar hafi „svipt atvinnutöframenn eigum sínum“.

Asahi segir ekkert athugavert vera við myndefnið. Nippon-sjónvarpsstöðin hefur hinsvegar ekki viljað tjá sig um málið.

„Það tekur okkur mörg ár að þróa peningatöfrabrögð,“ sagði Fujiyama, sem er 52ja ára gamall.

„Þeir verða að átta sig á því hvernig allur sá tími sem við höfum eytt (til að þróa töfrabrögðin) er nú fyrir bý eftir að þau voru gerð opinber,“ sagði hann. Sjónvarpsstöðvarnar tvær sýndu hvernig töfrabrögðin eru framkvæmd í nóvember sl. eftir að töframaður og kráareigandi voru handteknir fyrir að gera göt á smápeninga.

Samkvæmt japönskum lögum er bannað að skemma eða bræða smápeninga í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert