Bandaríkin og Íran ætla að funda um öryggismál í Írak

Íranar og Bandaríkjamenn hyggjast ræða öryggismál í Írak, en auk …
Íranar og Bandaríkjamenn hyggjast ræða öryggismál í Írak, en auk þeirra munu íraskir embættismenn sitja fundinn. Reuters

Bandarískir og íranskir embættismenn munu funda í Bagdad á morgun til þess að ræða öryggismál í Írak, þar sem yfirvöld í Washington hafa sakað Írana um að kynda undir ófrið. Fundurinn er óvenjulegur þar sem það er ekki á hverjum degi sem þessir erkifjendur setjast niður til viðræðna.

Fundur sendiherra Bandaríkjanna, Ryan Crocker, og íranska starfsbróður hans, Hassan Kazemi-Qomi, þykir marka viðsnúning hjá bandarískum stjórnvöldum í samskiptum við Írana. Árið 1980 slitu Bandaríkjamenn tengsl sín við Írana og á undanförnum árum hafa þeir reynt að einangra Íran.

Fram kemur að ekki verði rætt um kjarnorkuáætlun Írana á fundinum, en Bandaríkin hafa sakað Írana um ætla sér að framleiða kjarnorkuvopn.

Írakar segjast fagna fundinum, en þeir segjast hinsvegar ekki vilja verða vígvöllur þessara gömlu erkifjenda.

„Ég tel að þetta sé jákvæð þróun. Við ættum að hvetja til hennar og byggja á henni. Þetta er aðeins upphafið á ferlinu,“ sagði utanríkisráðherra Íraks, Hoshiyar Zebari, í samtali við Reuters-fréttastofuna.

Auk Bandaríkjamanna og Írana munu íraskir embættismenn sitja fundinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert