Alþjóðahvalveiðiráðið endurnýjar heimildir til frumbyggjaveiða

S-kóreskir andstæðingar hvalveiða mótmæla í dag við japanska sendiráðið
S-kóreskir andstæðingar hvalveiða mótmæla í dag við japanska sendiráðið AP

Alþjóðahvalveiðiráðið samþykkti án atkvæðagreiðslu í dag að framlengja um fimm ár veiðiheimildir til frumbyggjaveiða í Alaska í Bandaríkjunum og í Rússlandi. Heimildir hafa ekki verið ákveðnar fyrir Grænland og eyríkið St. Vincent og Grenadines.

Hvalveiðiráðið heimilaði veiðar á 280 sléttbökum til ársins 2012. Þar af fá frumbyggjar í Alaska í 10 þorpum að veiða 260 hvali en rússneskir frumbyggjar fá að veiða 20.

Talið er að beiðni Grænlendinga um framlengingu á sínum leyfum geti mætt mótstöðu þar sem þeir vilja bæta hnúfubaki á listann yfir þær hvalategundir sem veiða má og auka sléttbakskvótann.

Japanar studdu veiðikvóta til Inúíta og sögðu ástæðuna þá, að veiðarnar væru sjálfbærar. Japanar hvöttu hvalveiðiráðið jafnframt til að taka ábyrga afstöðu til tillögu um að fjögur strandhéröð í Japan fái hrefnuveiðikvóta sem rík hefð er fyrir hvalveiðum. Dýraverndunarsinnar hafa varað Bandaríkjamenn við því að láta undan slíkum þrýstingi og segja ekki um lífsviðurværis-veiðar að ræða.

Íslendingar styðja einnig frumbyggjaveiðarnar ásamt Norðmönnum og Japönum en hvalveiðiþjóðirnar ítrekuðu á fundi ráðsins kröfu sína um samræmi við ákvarðanatöku, en þar var átt við að leyfa eigi áðurnefndar veiðar Japana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert