Innan við 0,01% málshöfðana DHS tengjast hryðjuverkum

Rannsókn sem unnin var á vegum samtakanna The Transactional Records Action Claims (TRAC) sýnir að innan við 0,01% þeirra mála sem heimavarnarráðuneyti Bandaríkjanna (DHS) hefur höfðað fyrir innflytjendadómstólum í landinu á síðustu árum tengjast hryðjuverkastarfsemi en bandarísk yfirvöld hafa marglýst því yfir að meginmarkmið ráðuneytisins sé að berjast gegn hryðjuverkastarfsemi í Bandaríkjunum. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.

“DHS staðhæfir að það leggi fyrst og fremst áherslu á hryðjuverkastarfsemi. Það er einfaldlega ekki satt,” segir David Burnham, talsmaður TRAC. “Annað hvort er engin hryðjuverkastarfsemi í gangi eða þá að þeim gengur skelfilega að koma upp um hana. Hvort sem er, þá eru þetta slæmar niðurstöður fyrir okkur öll.”

Russ Knocke, talsmaður DHS, segir hins vegar að annarlegar hvatir hafi legið að baki rannsókn TRAC og að samtökin hafi engan skilning á því starfi sem unnið sé á vegum ráðuneytisins. Þá staðhæfir hann að starf þess hafi gert hryðjuverkamönnum erfiðara um vik að komast til Bandaríkjanna.

Sérfræðingar TRAC fóru yfir mikið magn áður óbirtra gagna sem samtökin fengu aðgang að eftir að hafa höfðað mál gegn yfirvöldum á grundvelli upplýsingalaga. Samkvæmt gögnum voru einungis 12 af þeim 814.073 einstaklingum sem ráðuneytið höfðaði mál gegn sakaðir um einhvers konar hryðjuverkastarfsemi. Í 85% tilvik var hins vegar um almenn brot á innflytjendalögum að ræða og þá sérstaklega dvöl í landinu án tilskilinna leyfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert