Japanar segjast ekki hætta við áform um hnúfubakaveiðar

Bill Hogarth, forseti Alþjóðahvalveiðiráðsins, ræðir við Minoru Morimoto, formann japönsku …
Bill Hogarth, forseti Alþjóðahvalveiðiráðsins, ræðir við Minoru Morimoto, formann japönsku sendinefndarinnar. AP

Japanar sögðust í dag ætla að halda fast við áform um að veiða 50 hnúfubaka í vísindaskyni síðar á þessu ári. Fulltrúar Japana á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Anchorage í Alaska gáfu til kynna í gær, að hugsanlega yrði fallið frá þessum áformum ef samþykkt yrði á fundinum tillaga um að íbúar fjögurra japanskra strandbæja fengju að veiða hrefnur í atvinnuskyni.

Fulltrúar þeirra ríkja, sem harðast berjast gegn hvalveiðum: Ástala, Nýsjálendinga, Breta, Argentínumanna, Þjóðverja og Bandaríkjamanna, höfnuðu þessum hugmyndum strax. Vangaveltur voru samt um það að Ástralar og Nýsjálendingar myndu síðar í dag ræða við Joji Mirishita, annan formann japönsku sendinefndarinnar, um málið. Talsmaður Japana sagði að þeir væru reiðubúnir að ræða við allar þjóðir um þessi mál en gerðu sér ekki vonir um mikinn árangur af slíkum viðræðum.

Japanar hafa tilkynnt, að áformað sé að veiða 50 hnúfubaka úr stofnum, sem fara meðfram ströndum Ástralíu og Nýja-Sjálands og út á Kyrrahaf. Þjóðirnar tvær, sem og náttúruverndarsamtök, hafa gagnrýnt þessi áform harðlega.

Japanar gáfu á síðasta ári út kvóta fyrir 10 búrhvali, 100 sandreiðar, 50 skorureyðar og 120 hrefnur í norðurhluta Kyrrahafs og 935 hrefnur og 10 langreyðar í Suðurhöfum. Nú áforma þeir að bæta við 50 hnúfubökum og auka langreyðakvótann í 50 dýr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert