Reynt að koma í veg fyrir að áhorfendur sniðgangi auglýsingar

Framleiðendur sjónvarpsefnis leggja nú aukna áherslu á að leita leiða til að koma í veg fyrir að áhorfendur DVD-diska með efni þeirra sleppi því að horfa á auglýsingakaflana. Eru framleiðendur nú sagðir leggja jafn mikla áherslu á þróun auglýsingatíma og annars efnis og hafa þeir m.a. reynt að setja framhaldssögur, spurninga- og tölvuleiki inn í auglýsingatímana. Þetta kemur fram á vef Yahoo.

Þá vinna a.m.k. tvær bandarískar sjónvarpsstöðvarnar nú að því að koma auglýsingum inn í vinsæla þætti í stað þess að hafa afmarkaða auglýsingatíma sem áhorfendur geta valið aðsniðganga. „Við þurfum öll að verða meira skapandi í því hvernig við komum kostun inn í sjónvarpsefni okkar,” segir Ed Swindler, aðstoðarframkvæmdastjóri söludeildar NBC Universal. „Það vill enginn hvorki í efnisframleiðslu né markaðsdeildunum gera auglýsingar meira truflandi en við verðum að auglýsa á áhrifaríkan hátt til að hafa efni á að bjóða áhorfendum upp á sjónvarpsefni þeim að kostnaðarlausu.”

Töluverð umræða hefur verið um það í Bandaríkjunum að undanförnu að neytendur sniðgangi í auknu mæli auglýsingar og hefur rannsóknarstofnunin Nielsen Media Research í þessari viku reglulegar mælingar fyrir sjónvarpsstöðvar á áhorf í auglýsingahléum en fram til þessa hefur einungis verið mælt áhorf á þætti með auglýsingahléum.

Um 17% bandarískra heimila hafa nú stafræn myndbandstæki og áætlar Nielsen að helmingur áhorfenda á aldrinum 18 til 49 ára, sem hafa aðgang að slíkum tækjum horfi á upptökur af sjónvarpsefni í stað þess að horfa á efnið þegar það er sent út og að mikill hluti þeirra spóli yfir auglýsingahlé.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert