Viltu vinna nýra?

Hollensk sjónvarpsstöð segist ekki ætla að hætta við sjónvarpsþátt sem gengur út á það að kona, sem þjáist af banvænum sjúkdómi, velur einn af þremur sjúklingum sem mun fá nýrun hennar eftir að hún deyr.

Stjórnmálaflokkar í landinu hafa kallað eftir því að hætt verði við sýningu „Stóra líffæragjafaþáttarins“. Sjónvarpsstöðin BNN er hinsvegar á allt öðru máli. Forráðamenn stöðvarinnar segja að þátturinn muni draga fram í dagsljósið hversu mikill skortur sé á líffæragjöfum í landinu.

„Þetta er brjáluð hugmynd,“ segir Joop Atsma, þingmaður Kristilega demókrataflokksins sem situr í ríkisstjórn.

„Það getur ekki verið mögulegt að í Hollandi geti fólk kosið um það hver fái nýra,“ sagði hann í samtali við breska ríkisútvarpið BBC.

Umræddur þáttur, sem er framleiddur af Endemol er bjuggu til Big Brother þættina, verður frumsýndur næsta föstudagskvöld.

Líffæragjafinn er 37 ára gömul kona sem gengur aðeins undir nafninu Lisa. Hún mun taka ákvörðun hvaða sjúklingur muni fá nýrun hennar og mun hún byggja ákvörðunina á sögu keppendanna, lýsingu þeirra auk þess sem hún mun ræða við vini og vandamenn þeirra.

Þá geta áhorfendur einnig komið sínum ráðleggingum á framfæri með því að senda textaskilaboð á meðan þátturinn er í gangi, en hann er um 80 mínútna langur.

Fyrrum yfirmaður BNN-sjónvarpsstöðvarinnar lést eftir nýrnabilun og hann var á biðlista í mörg ár á meðan hann beið eftir því að fá ný nýru.

„Í mörg ár þá þá hafa líffæragjafir í Hollandi verið vandamál og sér í lagi nýrnagjafir,“ segir Alexander Pechtold í sósíalíska frjálslyndaflokknum í Hollandi.

„Þú getur rætt um hvort þetta sé ósmekklegt eður ei, en loksins er hafin opinber umræða um þetta mál,“ sagði Pechtold.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert