Umhverfisverndarsamtök segja hugmyndir Bush hlálegar

George W. Bush Bandaríkjaforseti.
George W. Bush Bandaríkjaforseti. Reuters

Umhverfisverndarsamtök í Bandaríkjunum hafa gagnrýnt hugmyndir George W. Bush Bandaríkjaforseta að sjálfstæðri markmiðssetningu þjóða í umhverfismálum, sem forsetinn kynnti í gær. Brent Blackwelder, forseti samtakanna Friends of the Earth segir hugmyndir forsetans hlálega tilraun til að bæta ímynd Bandaríkjastjórnar í umhverfismálum án þess að gera nokkurn hlut til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.

Philip Clapp, forseti samtakanna National Environmental Trust, tekur í sama streng. „Þetta er augljós tilraun til að beina athyglinni frá þeirri staðreynd að forsetinn hefur neitað að fallast á nokkrar þær hugmyndir um takmarkanir á losun gróðurhúsalofttegunda sem lagðar verða fram á fundi G-8 ríkjanna í næstu viku,” segir hann. „Eftir að hafa leitt hjá sér umræður um loftslagsbreytingar árum saman er stjórn Bush ekki sérlega trúverðug í augum annarra ríkisstjórna í þessum málaflokki".

Þá segir Daniel J. Weiss, loftslagsráðunautur samtakanna Center for American Progress, hugmyndirnar vera í fullu samræmi við þá stefnu Bush-stjórnarinnar að gera ekkert og hunsa allar tilraunir bandalagsþjóða Bandríkjanna til að fá Bandaríkjamenn til að fallast á einhvers konar takmarkanir í losun gróðurhúsalofttegunda.

James Connaughton, formaður umhverfisverndarnefndar Hvíta hússins, hafnar því hins vegar að Bandaríkjastjórn sé að reyna að tefja málið. "Með þessu erum við einmitt að auka umræðuna. Vildum við tefja málið væruð þið einungis að horfa upp á árlega fundi á vegum Sameinuðu þjóðanna næstu fimm árin,” segir hann. “Við vinnum mikla vinnu á milli funda Sameinuðu þjóðanna þannig að við getum lagt afrakstur þeirrar vinnu fyrir fundi SÞ.

Þjóðverjar hafa lagt til að sett verði “annars stigs markmið” í umhverfismálum þar sem miðað verði við að komið verði í veg fyrir að hitastig heimsins hækki um meira en tvær gráður áður en það fer að lækka að nýju. Segja sérfræðingar að það muni þýða það að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda um 50% á tímabilinu 1990 til 2050.

Bush hvatti þjóðir heims til þess í gær að fallast á ný langtímamarkmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda fyrir lok næsta árs. Sagðist forsetinn ætla að boða til fundar með leiðtogum þeirra fjórtán ríkja, sem losa mest af gróðurhúsaloftegundum út í andrúmsloftið. Sagði Bush hugmyndir sínar í grundvallaratriðum vera þær að hver þjóð setji sér sín eigin langtímamarkmið í samræmi við orkunýtingu og fyrirsjáanlega orkuþörf sína. Þá sagði hann lausn málsins m.a. felast í afnámi tolla af tækjum sem nýti umhverfisvæna orku. Forsetinn hefur áður haldið því fram að nýjar tækniuppgötvanir muni leysa stóran hluta vandans innan skamms.

Bandaríkin hafa setið undir ásökunum um það á undanförnum árum að standa í vegi fyrir því að hamlað sé gegn losun gróðurhúsalofttegunda en þau fullgiltu ekki Kyoto-sáttmálann, þar sem sett voru markmið varðandi takmörkun slíkrar losunar fram til ársins 2012. Þá hefur Bush lýst því yfir að hann hyggist ekki fallast á tillögu Þjóðverja, sem þeir ætla að leggja fyrir leiðtogafund G-8 ríkjanna í næstu viku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert