Lewis Libby dæmdur í 30 mánaða fangelsi

Lewis Libby, fyrrum starfsmannastjóri Dick Cheney varaforseta Bandaríkjanna, var í dag dæmdur til 30 mánaða fangelsisvistar fyrir að standa í vegi fyrir framgangi réttvísinnar í rannsókn yfirvalda á því hver ljóstraði upp um fyrrum starfsmann bandarísku leyniþjónustunnar CIA. Enginn hefur hins vegar enn verið kærður fyrir að leka því í fjölmiðla að Valerie Plame, sem er gift sendiherra sem gagnrýndi opinberlega stefnu Bandaríkjastjórnar í Íraksmálinu, starfaði fyrir stofnunina. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Í úrskurði sínum segir dómarinn Reggie B. Walton óvéfengjanlegar sannanir liggja fyrir um sekt Libbys. Þá segir hann að fólk í stöðu Libbys, sem hafi velferð og öryggi almennings í sínum höndum, verði að axla þá sérstöku ábyrgð að gera ekki neitt sem geti valdið vandræðum.

Ekki er ljóst hvort kveðið er á um það í dómnum hvenær Libby á að hefja afplánun hans en hugsanlegt er talið að George W. Bush Bandaríkjaforseti náði hann.

Libby er valdamesti bandaríski embættismaðurinn sem sakfelldur er fyrir glæp í landinu frá Íran-Contra málinu á níunda áratug síðustu aldar.

Lewis Scooter Libby, fyrrum starfsmannastjóri varaforseta Bandaríkjanna.
Lewis Scooter Libby, fyrrum starfsmannastjóri varaforseta Bandaríkjanna. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert