Ráðist á sænska friðargæsluliða í Afganistan

Frá Afganistan.
Frá Afganistan. Reuters

Ráðist var á bílalest sænskra friðargæsluliða í ISAF-sveitunum í norðurhluta Afganistans í morgun. Um tíu sænsk farartæki voru í bílalestinni en engan Svía sakaði. Samkvæmt AFP fréttastofunni lést einn maður og sex særðust í árásinni.Þeir voru óbreyttir borgarar. Það hafa verið framdar fjórar sjálfsvígsárásir á undanförnum tveimur dögum í Afganistan og í þeim hafa 13 manns látist.

Árásin var gerð í bænum Mazar-i-Sharif þar sem um 300 sænskir ISAF-liðar halda til.

Að sögn Dagens Nyheter mun vegasprengja hafa sprungið við hlið bílalestarinnar sem stöðvaði ekki og hélt rakleiðis inn í búðir sínar.

Að sögn sænskra fjölmiðla lögðu sænsku ISAF-liðarnir hald á eitt og hálft tonn af skotfærum, þar á meðal fyrir stórskotalið og hríðskotabyssur í helli fyrir utan Mazar-i-Sharif í síðustu viku.

Ekki er ljóst hvort árásin í dag hafi verið gerð í hefndarskyni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert