Breskir reykingamenn fá ekki að verða fósturforeldrar

Óbeinar reykingar eru sérstaklega hættulegar mjög ungum börnum
Óbeinar reykingar eru sérstaklega hættulegar mjög ungum börnum Reuters

Reykingafólki verður meinað að taka að sér börn undir fimm ára aldri samkvæmt nýjum viðmiðunarreglum sem birtar verða þegar ný lög um reykingar taka gildi í Bretlandi þann 1. júlí nk. Helsta góðgerðastofnun Bretlands sem sér um að koma börnum fyrir hjá fósturforeldrum, The Fostering Network, hefur samið reglur fyrir sveitastjórnir og stofnanir þar sem mælst er til þess að reykingafólk fái ekki að taka ung börn að sér vegna hættu þeirrar sem óbeinar reykingar skapa ungum börnum.

Í reglunum segir að þótt öll börn eigi rétt á reyklausu umhverfi þá séu óbeinar reykingar sérstaklega hættulegar ungum börnum undir fimm ára. Þá verður mælt með því að börnum sem ekki geta verið mikið úti við, t.d. vegna fötlunar, verði aldrei komið fyrir í umsjá reykingafólks.

Reykingalögin taka gildi þann 1. júlí nk. en búist er við því að sveitastjórnir taki reglurnar upp smám saman. Forstjóri Fostering Network, Raina Sheridan, segir að augljóslega sé um mjög snúið atriði að ræða þar sem fósturforeldrar séu að vinna opinber störf á sínum eigin heimilum, hún segist hins vegar gera sér grein fyrir því að óraunsætt sé að ætlast til þess að allir fósturforeldrar hætti reykingum strax og lögin taka gildi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert