Fjórir Jemenar látnir lausir í Guantánamo fangabúðunum

Fanga fylgt af vörðum í Guantánamo fangelsinu.
Fanga fylgt af vörðum í Guantánamo fangelsinu. AP

Fjórir Jemenar hafa verið fluttir úr Guantánamo fangabúðunum á Kúbu til síns heima. Mennirnir höfðu verið í haldi Bandaríkjamanna í Guantanamo frá árinu 2002 en þeir voru grunaðir um að tengjast al-Qaida hryðjuverkasamtökunum.

Bandarísk stjórnvöld hafa staðfest að mennirnir hafi verið fluttir til Jemen á þriðjudag en ekki hefur verið gefið upp hverjir þeir eru. Alls hafa tólf Jemenar verið fluttir heim úr fangabúðunum, samkvæmt upplýsingum AP fréttastofunnar. Tæplega 100 Jemenar eru enn í haldi í Guantánamo fangabúðunum. Eru Jemenar fjölmennastir fanga í búðunum.

Samkvæmt heimildum AP er Ali Saleh Muhsin einn fjórmenninganna. Hefur fréttastofan eftir öryggisverði í búðunum að Muhsin eigi við geðræn vandamál að stríða án þess að skilgreina það nánar.

Allt frá því að Guantánamo fangabúðirnar voru settar á legg árið 2002 hafa Bandaríkjamenn látið 405 fanga lausa. Um 80 af þeim föngum sem enn eru í haldi bíða þess að vera látnir lausir þar sem ákvörðun þar að lútandi hefur verið tekin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert