Pólverjar hóta að beita neitunarvaldi gegn nýjum ESB-samningi

Angela Merkel kemur til fundarstaðar í Brussel í morgun.
Angela Merkel kemur til fundarstaðar í Brussel í morgun. Reuters

Pólverjar halda fast við þá hótun, að beita neitunarvaldi gegn nýjum sáttmála, sem á að koma í stað áður fyrirhugaðrar stjórnarskrár Evrópusambandsins. Fjalla á um málið á leiðtogafundi Evrópusambandsins, sem hefst í Brussel í dag, en Pólverjar vilja fá aukið atkvæðavægi innan ESB í bætur fyrir það mannfall, sem varð í landinu á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Jaroslaw Kaczynski, forsætisráðherra Póllands, sagði í viðtali við pólskt dagblað í dag, að áætlunardrög, sem Angela Merkel, kanslari Þýskalands hefði lagt fram, væru enn ekki fullnægjandi að mati Pólverja. Fáist ekki á því bót muni Pólverjar beita neitunarvaldi.

Samkvæmt tillögu Merkel um vegið atkvæðavægi ESB-ríkja er miðað við mannfjölda í ríkjunum. Kaczynski hefur sagt, að Pólverjar vilji fá bætur fyrir þá fólksfækkun, sem varð í Póllandi á tímum síðari heimsstyrjaldar eftir að þýskir nasistar gerðu innrás í landið. Segir Kaczynski að Pólverjar væru mun fjölmennari nú ef stríðið hefði ekki orðið.

Merkel kom snemma í morgun til Brussel til að ræða við José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB og Javier Solana, utanríkismálastjóra sambandsins.

Frank-Walter Steinmeier, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði í morgun að verið væri að reyna að ná samkomulagi við aðildarríki sem hefðu efasemdir um málið.

Bretar eru einnig afar andvígir sumum hlutum samningsins, sem á að koma í stað stjórnarskrárinnar sem Frakkar og Hollendingar höfnuðu í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir tveimur árum.

Merkel leggur áherslu á að gera verði endurbætur á stjórnkerfi ESB svo það geti tekist á við aðsteðjandi vandamál. Hún hefur sent öðrum ESB-leiðtogum 11 blaðsíðna lista yfir þau atriði, sem hún segir nauðsynlegt að ræða á fundinum, sem stendur í tvo daga.

Margaret Beckett, utanríkisráðherra Bretlands, sagði að önnur ESB-ríki væru „í afneitum" vegna þess að stjórnarskránni var hafnað á sínum tíma. Ekki sé hægt að samþykkja nýjan samning svipaðan stjórnarskránni sem hafnað var.

Meðal tillagna Merkel er að samningurinn verði ekki nefndur stjórnarskrá heldur Sáttmáli um starfsemi sambandsins. Þýsk stjórnvöld vilja að ESB-ríki staðfesti sáttmálann á næstu mánuðum. Gert er ráð fyrir að þjóðþing landanna fái að taka aukinn þátt í samningu ESB-laga en það er einkum að kröfu Hollendinga. Hins vegar er mælt með því, að ákveðnir þættir stjórnarskrárinnar verði einnig í samningnum, einkum um ákvarðanatöku.

Pólverjar vilja endurskoða tillögur um atkvæðavægi og pólskir fjölmiðlar sögðu einnig frá því í dag, að pólsk stjórnvöld hafi tekið upp á ný kröfu um að vísað verði til kristinna gilda í sáttmálanum. Af því er Merkel ekki mjög hrifin.

Bretar eru á móti því að stofnanir Evrópusambandsins fái aukin völd til að móta stefnu, svo sem í utanríkismálum. Öll aðildarríkin eru hins vegar sammála um, að taka verði upp nýjar reglur til samræmis við það, að aðildarríkjum hefur fjölgað úr 15 í 27 á stuttum tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert