Pólverjar lýsa ánægju með samkomulag um nýjan ESB-sáttmála

Eftir Guðmund Sv. Hermannsson
Lech Kaczynski, forseti Póllands, lýsti í nótt mikilli ánægju með samkomulag, sem náðist loks undir miðnættið um meginatriði nýs sáttmála um stjórnkerfi Evrópusambandsins. Þakkaði Kaczynski einkum Bretum og Frökkum fyrir þann stuðning, sem þeir hefðu veitt Pólverjum í málinu.

„Það var að mestu leyti tekið tillit til okkar athugasemda," sagði Kaczynzki við blaðamenn í Brussel þar sem tveggja daga leiðtogafundur Evrópusambandsins fór fram.

Pólverjar gerðu miklar athugasemdir við tillögur um breytingar á atkvæðavægi aðildarríkja ESB og héldu því fram að þær væru mun hagstæðari fjölmennum þjóðum á borð við Þýskaland. Kaczynzki sagði að niðurstaðan væri mun hagstæðari Pólverjum en upphaflegar tillögur.

Nýtt kerfi tekur gildi 2014
Niðurstaðan var sú í stórum dráttum, að nýja atkvæðavægiskerfið verði ekki tekið upp fyrr en árið 2014 og þá í áföngum á næstu þremur árum. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sem stýrði leiðtogafundinum í Brussel, sagði á blaðamannafundi í nótt, að góðir möguleikar væru á að nýi sáttmálinn tæki gildi árið 2009 áður en kosið verður til Evrópuþingsins.

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sem sat sinn síðasta leiðtogafund, sagði að samkomulagið fæli í sér möguleika fyrir Evrópusambandið til að horfa fram á veginn á ný eftir þær ógöngur sem sambandið lenti í þegar Frakkar og Hollendingar höfnuðu fyrirhugaðri stjórnarskrá ESB í þjóðaratkvæðagreiðslum fyrir tveimur árum.

„Það mikilvægasta er að það gerir okkur kleift að snúa okkur að mun mikilvægari hlutum sem skipta borgara í Evrópu miklu máli," sagði Blair við blaðamenn í nótt. Nefndi Blair efnahagsmál, skipulagða glæpastarfsemi, hryðjuverkastarfsemi, innflytjendamál, varnarmál, loftslagsbreytingar, umhverfismál og orkumál.

Blair tókst að mestu að halda til haga þeim áhersluatriðum, sem Bretar lögðu fram, sem voru einkum þau að aðildarríki gæfu ekki eftir vald í utanríkismálum, dóms- og lögreglumálum, skattareglum og félagsmálum.

Gert er ráð fyrir að nýi sáttmálinn innihaldi mörg atriði úr fyrirhugaðri stjórnarskrá. Þar á meðal er gert ráð fyrir sérstöku embætti forseta Evrópusambandsins og einnig embætti utanríkismálastjóra sem hafi umtalsverð völd. Gert er ráð fyrir að gengið verði frá sáttmálanum á sérstakri ríkjaráðstefnu ESB síðar á árinu og síðan þurfa aðildarríkin að staðfesta sáttmálann áður en hann tekur gildi.

Sarkosy tók af skarið
Litlu munaði seint í gærkvöldi að leiðtogafundinum í Brussel lyki án þess að samkomulag næðist. Þótt pólski forsetinn hrósaði Angelu Merkel í nótt fyrir vingjarnlega framkomu í garð Pólverja hafði Merkel raunar í gærkvöldi fengið nóg af þvermóðsku Pólverja og hvatti önnur ESB-ríki til að ganga frá samkomulagi án þeirra.

Á meðan Merkel snæddi kvöldverð kallaði Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, Lech Kaczynski á einkafund og bað einnig Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, að ræða við þá. Þeir hringdu síðan í Jaroslaw Kaczynski, forsætisráðherra Póllands, og skömmu síðar var tilkynnt að Pólverjar hefðu fallist á samkomulag. Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar, og José Luis Rodríguez Zapatero, forsætisráðherra Spánar, komu einnig að málinu.

Talsmaður Sarkozys sagði í nótt, að forsetinn hafi viljað reyna að ná samkomulagi við Pólverja með öðrum aðferðum en Merkel beitti. Þegar talsmaðurinn var spurður hvort Sarkozy hefði haldið fundinn með vitund og vilja Merkel svaraði hann: „Sarkozy forseti er vanur að grípa til sinna ráða þegar hann telur það henta. Sarkozy vildi ekki beita Pólverja hörðu. Ef svo væri hefði hann aldrei beðið Lech Kaczynski, forseta, að ræða við sig á meðan aðrir snæddu kvöldverð."

Merkel sagði á blaðamannafundi í nótt, að menn hefðu gert sér ljóst, að ekki væri hægt að fallast á alla hluti. „Ég held að það sé hægt að draga af því lærdóm," sagði hún.

José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, færir Angelu Merkel, kanslara …
José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, færir Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, blóm á blaðamannafundi í Brussel í nótt. Reuters
Lech Kaczynski, forseti Póllands, á blaðamannafundi í Brussel í nótt.
Lech Kaczynski, forseti Póllands, á blaðamannafundi í Brussel í nótt. Reuters
Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Frakka, og Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, ræða við …
Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Frakka, og Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, ræða við blaðamenn í nótt. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert