Blair lýsir áhuga á að vinna að friði í Miðausturlöndum

Blair tók á móti Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóra Kalíforníu, í Downingstræti …
Blair tók á móti Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóra Kalíforníu, í Downingstræti 10 í morgun. Reuters

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sagði við fréttamenn í dag, að hann væri reiðubúinn að gera það sem í hans valdi stendur til að koma á friði milli Ísraelsmanna og Palestínumananna. Ríkjakvartettinn svonefndi, sem hefur látið friðarferlið fyrir botni Miðjarðarhafs til sín taka, íhugar að útnefna Blair sem sérstakan friðarerindreka á svæðinu eftir að hann lætur af embætti forsætisráðherra Bretlands á morgun.

Fulltrúar Evrópusambandsins, Rússlands, Bandaríkjanna og Sameinuðu þjóðanna áttu í dag fund í Jerúsalem til að ræða stöðuna á heimastjórnarsvæðum Palestínumanna eftir að Hamassamtökin náði völdum á Gasasvæðinu. Bandaríkjamenn hafa lagt til að Blair verði fenginn til að leiða friðarstarf á svæðinu en margir Arabar telja hins vegar að Blair sé allt of hallur undir Bandaríkin og Ísrael. Blaðið Financial Times sagði í dag, að Javier Solana, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, væri andvígur því að útnefna Blair friðarerindreka.

Blair var spurður um málið þegar hann ræddi við blaðamenn í morgun eftir fund með Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóra Kalíforníu, í Downingstræti 10 í Lundúnum.

„Ég held að allir þeir sem vilja tryggja frið og öryggi í heiminum viti, að varanleg lausn á málum Ísraelsmanna og Palestínumanna er nauðsynleg. Og ég mun gera það sem í mínu valdi stendur til að stuðla að slíkri lausn." sagði Blair.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert